Hoppa yfir valmynd
17. desember 2019 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Sviðlistafrumvarp samþykkt á Alþingi

Sviðlistafrumvarp samþykkt á Alþingi - myndÍD/Jónatan Grétarsson
Alþingi samþykkti í dag ný lög um sviðslistir en með þeirri löggjöf er leitast við að skapa sambærilegan lagaramma um sviðslistir eins og fyrir bókmenntir, myndlist og tónlist, sem gefist hefur vel.

„Ég fagna nýjum lögum um sviðslistir og tel þau mikið heillaskref. Lögin eru til þess fallin að efla menningarlíf okkar og stuðla að aukinni fagmennsku en sviðslistir eru í miklum vexti. Ég vil þakka þeim fjölmörgu sem komu að þessari mikilvægu vinnu og veittu gagnlegar umsagnir,” sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Meðal helstu nýmæla í lögunum er að í fyrsta sinn er lögfest ákvæði um Íslenska dansflokkinn, en hann hefur starfað síðan 1972. Þá er ákvæðum um þjóðleikhússtjóra og listdansstjóra breytt þannig að ríkari kröfur eru gerðar um menntun þeirra auk þess sem mælt er fyrir um skipunartíma og mögulega endurskipun. Ákvæði um þjóðleikhúsráð er breytt þannig að fagfélög sviðslistafólks innan Sviðslistasambands Íslands tilnefna þrjá fulltrúa í þjóðleikhúsráð en tveir fulltrúar verði skipaðir án tilnefningar. Þá er ákvæði um aðra sviðslistastarfsemi, sviðslistaráð og sviðslistasjóð. Sviðslistaráð úthlutar úr sviðslistasjóði sem skiptist í tvær deildir, deild atvinnuhópa og deild áhugahópa í sviðslistum. Þá skal ráðherra setja á fót kynningarmiðstöð sviðslista til að annast kynningarmál á íslenskum sviðslistum hér á landi og erlendis og efla alþjóðlegt samstarf íslenskra sviðslistamanna og stofnana. Ákvæði til bráðabirgða kveður á um að ráðherra skipi nefnd sem falið verði að gera tillögur um þjóðaróperu.

Endurskoðun laga um sviðslistir hefur staðið yfir í rúm fimm ár. Samráðsferli vegna þessa hófst í janúar 2018 með kynningarfundi með helstu hagsmunaaðilum. Áform um lagasetninguna voru kynnt í Samráðsgátt í september 2018 og frumvarpsdrögin í lok október sama ár.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira