Hoppa yfir valmynd
18. desember 2019 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Frumvarp um úthlutun tollkvóta samþykkt á Alþingi

Alþingi samþykkti í gær frumvarp Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um úthlutun tollkvóta. Markmið frumvarpsins er að koma ávinningnum sem skapast með úthlutun tollkvóta í meira mæli til neytenda í formi lægra vöruverðs. Þá verður ráðgjafarnefnd um inn- og útflutning landbúnaðarvara lögð niður frá 1. janúar nk. enda hefur nefndinni reynst erfitt, raunar ómögulegt, að sannreyna hvenær framboð vöru telst ekki nægjanlegt á innanlandsmarkmiði. Jafnframt er með samþykkt frumvarpsins verið að nútímavæða og einfalda umsýslu með því að úthlutun tollkvóta fari fram á rafrænu vefsvæði.

 

Frumvarpið byggir á tillögum starfshóps sem skilaði tillögum sínum í janúar sl. en í honum áttu sæti fulltrúar Bændasamtaka Íslands, Samtaka atvinnulífsins, Neytendasamtakanna auk fulltrúa ráðuneytisins.

 

Útboðsgjald lækkar um 240-590 m.kr. á ári

Tollkvótar eru í eðli sínu ávísun á takmörkuð verðmæti og hefur eftirspurn eftir þeim aukist á síðastliðnum árum. Gildandi regluverk við þá úthlutun er með þeim hætti að tollkvótarnir eru boðnir út og þeim úthlutað til hæstbjóðenda. Þessi gjaldtaka hefur skapað ríkinu nokkrar tekjur en á sama tíma hefur fyrirkomulagið leitt til hærra vöruverðs fyrir neytendur, þvert á tilgang þess sem að baki tollasamning Íslands og Evrópusambandsins árið 2015 liggur.

 

Markmiðið með skipan starfshópsins í fyrra var að finna leiðir til þess að koma ávinningnum sem skapast með þessum takmörkuðu gæðum sem tollkvótar eru í meira mæli til neytenda í formi lægra vöruverðs. Með samþykkt frumvarpsins verður núgildandi úthlutunaraðferð tollkvóta breytt með þeim hætti að stuðst verður við svokallað jafnvægisútboð. Í því felst að lægsta samþykkta tilboð útboðs ákvarðar verð allra samþykktra tilboða, þ.e. allir sem fá úthlutað tollkvóta greiða það verð sem lægsta samþykka tilboð hljóðaði upp á. Þannig er gróflega áætlað að með breytingunni muni tekjur ríkissjóðs vegna útboða á tollkvótum lækka um 240-590 milljónir króna á ári. Í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu er unnið að því að koma á fót samstarfsverkefni um eftirlit á markaði til að tryggja að lækkaðar álögur á vörur skili sér í lægra verði til neytenda.

 

Jafnframt er lagt til að umsýsla og úthlutun tollkvóta verði nútímavædd og fari fram á rafrænu vefsvæði og að allir tollkvótar verði boðnir út á sama tíma. Einnig má nefna þá breytingu að heimildir fyrir innflutning á svokölluðum opnum tollkvótum verði afnumdar í núverandi mynd og þar með verði ráðgjafarnefnd um inn- og útflutning landbúnaðarvara lögð niður.

 

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra:

„Ég hef talið núgildandi fyrirkomulag við úthlutun tollkvóta bæði óeðlilegt og ósanngjarnt, sérstaklega fyrir hagsmuni neytenda. Því er samþykkt Alþingis á þessu frumvarpi sérstakt fagnaðarefni enda má gera ráð fyrir að kostnaður vegna útboða lækki talsvert. Þá verður allt regluverk um úthlutun tollkvóta sanngjarnara og einfaldara til hagsbóta fyrir neytendur, framleiðendur og innflytjendur matvæla.“

 

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

15. Líf á landi
11. Sjálfbærar borgir og samfélög

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum