Hoppa yfir valmynd
18. desember 2019 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Frumvörp um Hálendisþjóðgarð og Þjóðgarðastofnun kynnt í samráðsgátt

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur kynnt í samráðsgátt tvö frumvörp, um Hálendisþjóðgarð og um Þjóðgarðastofnun og þjóðgarða.

Frumvarp um Hálendisþjóðgarð tekur til stofnunar þjóðgarðs á miðhálendi Íslands, á landsvæði sem er í sameign þjóðarinnar; þjóðlendum og friðlýstum svæðum innan miðhálendisins. Það er í samræmi við tillögur nefndar fulltrúa allra þingflokka og stjórnvalda, bæði ríkis og sveitarfélaga, sem vann að undirbúningi stofnunar þjóðgarðsins.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er kveðið á um stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands. Á miðhálendinu eru ein stærstu óbyggðu víðerni Evrópu. Miklar andstæður í náttúrufari er þar að finna; svarta sanda, jökulbreiður, fágætar gróðurvinjar og fjölda sérstæðra jarðmyndana sem finn¬ast hvergi annars staðar í heim¬in¬um á einu og sama svæðinu.

Rannsóknir hafa sýnt fram á ótvíræð jákvæð efnahagsleg áhrif friðlýstra svæða, bæði á þjóðarbúið og nærumhverfi svæðanna. Stofnun þjóðgarðs er þannig talin hafa jákvæð áhrif á byggðaþróun á þeim svæðum sem þjóðgarðurinn tekur til og geta skapað atvinnutækifæri, bæði heima í héraði og á landsvísu.

Á miðhálendinu má nú þegar finna stór svæði sem njóta verndar. Má þar nefna Vatnajökulsþjóðgarð, Þjórsárver, Landmannalaugar og Hveravelli. Með stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands er gert ráð fyrir að stjórnun og stefna fyrir svæðið verði samræmd með markvissum og heildstæðum hætti með ríkri aðkomu nærliggjandi sveitarfélaga.

Í frumvörpunum er lögð áhersla á að stjórnun Hálendisþjóðgarðs sé bæði hjá ríki og viðkomandi sveitarfélögum. Gert er ráð fyrir að sérstök stjórn, sem í sitji ellefu stjórnarmenn, fari með stjórn þjóðgarðsins og að hún verði að meirihluta skipuð fulltrúum sveitarfélaga, auk félagasamtaka og hagsmunaaðila. Þá verði þjóðgarðinum skipt upp í sex rekstrarsvæði og yfir hverju þeirra sérstakt umdæmisráð, skipað fimm fulltrúum sveitarfélaga, auk fulltrúum frá útivistarsamtökum, umhverfisverndarsamtökum, Bændasamtökum Íslands og ferðaþjónustuaðilum.

Gert er ráð fyrir að Hálendisþjóðgarður verði sjálfstæð eining innan nýrrar stofnunar, Þjóðgarðastofnunar, sbr. drög að frumvarpi um stofnunina sem kynnt hafa verið í samráðsgátt.

Með frumvarpi um Þjóðgarðastofnun og þjóðgarða er gert ráð fyrir að í stað tveggja ríkisstofnana, þ.e. Vatnajökulsþjóðgarðs og Þjóðgarðsins á Þingvöllum, verði sett á fót ein ný ríkisstofnun. Auk þess er gert ráð fyrir að verkefni Umhverfisstofnunar á sviði náttúruverndar verði færð til stofnunarinnar, auk þjóðgarðsins Snæfellsjökuls sem nú heyrir undir Umhverfisstofnun.

Markmiðið með stofnun Þjóðgarðastofnunar er m.a. að efla enn frekar miðlæga starfsemi í rekstri þjóðgarða og annarra friðlýstra svæða, sæmhæfa og samþætta sambærileg verkefni hjá þeim stofnunum og þannig auka skilvirkni í starfseminni, um leið og ríkisstofnunum er fækkað. Verkefni stofnunarinnar munu felast í umsjón og rekstri náttúruverndarsvæða, undirbúningi friðlýsinga og verkefnum tengdum náttúruminjaskrá auk annarra almennra verkefna á sviði náttúruverndar. Þannig verður skipulag og starfsemi þjóðgarða og friðlýstra svæða samræmd með auknum faglegum stuðningi. Slíkt er brýnt í kjölfar fjölgunar ferðamanna og stóraukins álags á helstu náttúruperlur landsins í þjóðgörðum og á friðlýstum svæðum. Með auknu fjármagni til uppbyggingar innviða og aukinnar landvörslu mun náttúruvernd og umsjón svæða styrkjast enn frekar.

Spurt og svarað um Hálendisþjóðgarð

Frumvarp til laga um Hálendisþjóðgarð í samráðsgátt stjórnvalda.

Frumvarp til laga um Þjóðgarðastofnun og þjóðgarða í samráðsgátt stjórnvalda.





 


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum