Hoppa yfir valmynd
19. desember 2019 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Breytingar á staðgreiðslu um áramót

Nýlega samþykkti Alþingi umfangsmiklar breytingar á tekjuskatti einstaklinga. Eru þær breytingar afrakstur vinnu um heildarendarskoðun tekjuskattskerfisins til lækkunar á skattbyrði. Ábati breytinganna skilar sér til allra tekjutíunda en sérstaklega til lág- og millitekjuhópa. Nú um áramótin tekur gildi fyrri áfangi breytinganna þegar tekið verður upp nýtt þriggja þrepa kerfi á sama tíma og grunnþrep tekjuskattskerfisins lækkar. Síðari áfanginn tekur gildi 1. janúar, 2021 og mun fela í sér enn frekari lækkun á grunnþrepi tekjuskatts.

Þau fjárhæðamörk sem birtast í sjálfum lagabreytingunum, sem samþykktar voru á Alþingi fyrr í vetur, miða við árið 2019. Í samræmi við lög nr. 90/2003, um tekjuskatt, skal breyta fjárhæðunum um áramótin í takt við þróun vísitölu neysluverðs næstliðna 12 mánuði. Hækkun vísitölu neysluverðs liggur nú fyrir og nemur hún 2,0% á 12 mánaða tímabili.

Á grundvelli þess eru skatthlutföll og fjárhæðamörk árið 2020 eftirfarandi.

2020

Prósenta í 1. þrepi:

35,04% (þar af 14,44% útsvar)

Prósenta í 2. þrepi:

37,19% (þar af 14,44% útsvar)

Prósenta í 3. þrepi:

46,24% (þar af 14,44% útsvar)

 

Á ári

Á mánuði

Persónuafsláttur:

655.538 kr.

54.628 kr.

Þrepamörk milli 1. og 2. þreps:

4.042.995 kr.

336.916 kr.

Þrepamörk milli 2. og 3. þreps:

11.350.472 kr.

945.873 kr.

Samkvæmt fyrirliggjandi ákvörðunum sveitarfélaga eru engar breytingar á útsvarshlutfalli og þá er meðalútsvarshlutfall jafnframt óbreytt milli ára, þ.e. 14,44%. Við staðgreiðslu ber launagreiðendum að miða við meðalútsvarshlutfallið. Þannig er skatthlutfall í nýju grunnþrepi 35,04%, þar af 20,60% til ríkis. Skatthlutfall í nýju miðþrepi er 37,19%, þar af 22,75% til ríkis og skatthlutfall í 3. þrepi er áfram 46,24%, þar af 31,80% til ríkis.
Skattleysismörk tekjuskatts og útsvars verða samkvæmt því 162.398 kr. á mánuði að teknu tilliti til 4% lögbundinnar iðgjaldsgreiðslu launþega í lífeyrissjóð samanborið við 159.174 kr. á mánuði árið 2019. Hækkun skattleysismarka er því 2,0% í samræmi við hækkun vísitölu neysluverðs.

Tryggingagjald

Tryggingagjald lækkar um 0,25 prósentustig um áramótin. Skipting þess er sem hér segir:

2020

Almennt tryggingagjald

4,90%

Atvinnutryggingagjald

1,35%

Gjald í Ábyrgðarsjóð launa vegna gjaldþrota

0,05%

Markaðsgjald

0,05%

Samtals til staðgreiðslu

6,35%

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum