Hoppa yfir valmynd
20. desember 2019 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra boðar til jafnréttisþings í febrúar 2020

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, hefur í samstarfi við Jafnréttisráð boðað til jafnréttisþings undir yfirskriftinni Jafnrétti í breyttum heimi. Þingið verður haldið í Hörpu þann 20. febrúar 2020.

Hlutverk Jafnréttisþings er að efna til umræðna um jafnréttismál milli stjórnvalda og almennings og gefa áhugasömum kost á að hafa áhrif á stefnumótun málaflokksins. Á þinginu verður fjallað um samspil jafnréttis- og umhverfismála í tengslum við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Sérstaklega verður litið til framtíðaráskorana hvað varðar tæknibreytingar, loftslagsbreytingar og nýja atvinnu- og lifnaðarhætti og velt upp hvaða áhrif þessir þættir kunna að hafa á stöðu kynjanna í íslensku samfélagi.

Jafnréttisþing er haldið annað hvert ár í samræmi við lög nr. 10/2008 um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla og er undirbúningur þess í höndum Jafnréttisráðs í samráði við ráðherra jafnréttismála, sem nú er jafnframt forsætisráðherra.

Nánari dagskrá þingsins verður kynnt síðar.

Heimsmarkmiðin

5. Jafnrétti kynjanna
17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum