Hoppa yfir valmynd
23. desember 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mannvirkjastofnun og Íbúðalánasjóður sameinast í Húsnæðis- og mannvirkjastofnun

Frá Reykjavík - myndHugi Ólafsson

Alþingi hefur samþykkt frumvarp félags- og barnamálaráðherra um að sameina Íbúðalánasjóð og Mannvirkjastofnun í nýja stofnun sem mun bera nafnið Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS).

Markmið stjórnvalda með því að sameina stofnanirnar tvær er að stuðla að betri, öruggari og skilvirkari húsnæðismarkaði fyrir almenning, byggingariðnaðinn og aðra haghafa. Í nýrri stofnun verður stjórnsýsla bygginga-, bruna - og húsnæðismála efld auk þess sem stofnunin mun sinna nánara samstarfi við sveitarfélög landsins á þessum sviðum og veita þeim aukinn stuðning.

Allt starfsfólk heldur störfum sínum hjá sameinaðri stofnun

Öllu starfsfólki stofnananna tveggja hefur verið boðið starf hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og verður starfsemin flutt undir sama þak í fyrrum húsnæði Íbúðalánasjóðs að Borgartúni 21. Hermann Jónasson verður forstjóri sameinaðrar stofnunar og Anna Guðmunda Ingvarsdóttir aðstoðarforstjóri. Jafn margir karlar og konur tilheyra stjórnendahópi nýju stofnunarinnar og kynjahlutföll í framkvæmdastjórn og í hópi forstöðumanna verða einnig jöfn.

Tækifæri að efla öryggis- og umhverfishlutverk auk samræmingar byggingarmála

Hjá sameinaðri stofnun munu alls starfa yfir hundrað manns. Með stærðarhagkvæmni og samlegðaráhrifum gefst kostur á að efla enn frekar forvarnar- og eftirlitsstarf á sviði mikilvægra málefna eins og brunamála, rafmagnsmála og byggingareftirlits. Auk þess er stefnt á að efla verulega stafræna stjórnsýslu. Þar má helst nefna rafræna byggingargátt sem nýverið var tekin í gagnið, en í henni er að finna öll gögn er varða mannvirki; allt frá umsókn um byggingarleyfi til lokaúttektar.

Fimm mynda nýskipaða stjórn HMS

Þá hefur ráðherra skipað stjórn yfir stofnunina en í henni eiga sæti Sigurjón Örn Þórsson, Ásta Pálmadóttir, Björn Gíslason, Elín Oddný Sigurðardóttir og Karl Björnsson.

„Ég er mjög ánægður með að við höfum stigið það skref að setja á fót öfluga stofnun sem heldur á öllum þráðum hvað varðar húsnæðis- og mannvirkjamál, allt frá byggingarefnum og brunavörnum til aðgerða sem stuðla að jafnvægi á húsnæðismarkaði. Með því að setja alla þessa starfsemi undir einn hatt verður þróun í þessum mikilvæga málaflokki skilvirkari en áður,“ segir Ásmundur Einar.

 

 

 

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum