Hoppa yfir valmynd
30. desember 2019 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Hvað knýr áfram hagvöxt?

Grein eftir Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra sem birtist í Morgunblaðinu 30. desember 2019.

Áhugaverðir tímar eru fram undan á Íslandi vegna þeirra framfara sem eiga sér stað á sviði tækni og vísinda. Þó að hægst hafi á hagkerfinu, en gert er ráð fyrir um 1,5% hagvexti árið 2020, þá eru sóknarfæri víða. Stjórnvöld hafa mótað sína hagstjórn út frá breyttum forsendum. Fjárlög ársins 2020 voru samþykkt með halla sem nemur 0,3% af landsframleiðslu og raunvextir Seðlabanka Íslands eru 0,3% miðað við ársverðbólgu. Staða ríkissjóðs Íslands er hins vegar sterk. Heildarskuldir hafa lækkað mjög hratt frá fjármálahruni, farið úr 90% af landsframleiðslu í 20%, þ.e. hrein staða. Stöðugleikaframlög og góð efnahagsstaða hafa átt ríkan þátt í þessari þróun. Þróttur íslenska hagkerfisins er umtalsverður og hið opinbera mótar stefnu sína út frá breyttum forsendum. Íslenska hagkerfið er undirbúið og hið opinbera kemur til móts við hana með skattalækkunum í gegnum lífskjarasamninga og auknum opinberum framkvæmdum.

Til að tryggja lífsgæði á Íslandi þarf sterkt og öflugt efnahagslíf. Verkefnið fram undan er að styrkja umgjörðina sem knýr áfram framfarir og hagvöxt. Þetta er gert með því að styðja betur við menntakerfið, nýsköpun og þróun. Hagvöxtur framtíðarinnar verður í auknum mæli drifinn áfram af mannauði hvers samfélags. Þar mun samspil verk- og hugvits skipta sköpum. Ísland ætlar sér að vera leiðandi á þessu sviði. Því hefur ríkisstjórnin hafið stórsókn í menntamálum og varið miklum fjármunum til nýsköpunar. Hagsæld framtíðarinnar mun grundvallast í auknum mæli á gæðum menntunar og jöfnum tækifærum. Örar tækniframfarir krefjast þess að menntakerfið okkar geti tekist á við breytingar. Íslenskt samfélag er kjörið til þess að fást við þessar áskoranir, þar sem tæknibreytingar gagnast oft fámennum samfélögum þar sem tæknin hefur verið nýtt til að einfalda og auka skilvirkni. Til þess að nýta tækniframfarir verður þekkingargrunnurinn að vera öflugur og tilbúinn að takast á við breytta tíma. Framtíðarsýnin er sú að störf verði í auknum mæli til í gegnum nýsköpun og að starfsumhverfi fyrirtækja sé traust og hvetjandi á Íslandi.

Höfundur er mennta- og menningarmálaráðherra og situr í ráðherranefnd um efnahagsmál.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira