Hoppa yfir valmynd
30. desember 2019 Forsætisráðuneytið

Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlitið sameinast 1. janúar 2020

Ný lög um Seðlabanka Íslands, nr. 92/2019, taka gildi þann 1. janúar nk. sem og lög nr. 91/2019, um breytingu á ýmsum lögum vegna sameiningar Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins.

Með þessum breytingum sameinast Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlitið í eina stofnun undir nafni Seðlabanka Íslands. Markmið Seðlabankans er að stuðla að stöðugu verðlagi, fjármálastöðugleika og traustri og öruggri fjármálastarfsemi. Þá skal bankinn sinna viðfangsefnum sem samrýmast hlutverki hans sem seðlabanka, svo sem að varðveita gjaldeyrisforða og stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi, þ.m.t. greiðslumiðlun í landinu og við útlönd.

Í yfirstjórn Seðlabankans eru seðlabankastjóri og þrír varaseðlabankastjórar og leiða þeir hver um sig málefni peningastefnu, fjármálastöðugleika og fjármálaeftirlits. Seðlabankastjóri er Ásgeir Jónson, varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits er Unnur Gunnarsdóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu er Rannveig Sigurðardóttir og hefur Gunnar Jakobsson verið skipaður varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika frá og með 1. mars 2020.

Í sameinaðri stofnun Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins verða tvær nýjar nefndir sem, auk peningastefnunefndar, munu vinna að meginmarkmiðum stofnunarinnar. Fjármálaeftirlitsnefnd mun taka ákvarðanir sem faldar eru Fjármálaeftirlitinu í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum og verður stjórn Fjármálaeftirlitsins, sem hingað til hefur tekið meiriháttar ákvarðanir, lögð niður. Ákvarðanir um beitingu stjórntækja Seðlabankans varðandi fjármálastöðugleika verða teknar af fjármálastöðugleikanefnd. Reglulegt starf fjármálastöðugleikaráðs mun því taka breytingum og kerfisáhættunefnd, sem hefur starfað fyrir fjármálastöðugleikaráð, verður lögð niður.

Heimsmarkmiðin

9. Nýsköpun og uppbygging
8. Góð atvinna og hagvöxtur

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira