Hoppa yfir valmynd
6. janúar 2020 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Áform um breytingar á lögum í kjölfar nýrrar persónuverndarlöggjafar í opið samráð

  - myndHaraldur Jónasson / Hari
Áform um breytingar á ýmsum lögum á málefnasviði mennta- og menningarmálaráðuneytis í kjölfar gildistöku laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga eru nú til kynningar í Samráðsgátt stjórnvalda.

Með frumvarpinu verða lagðar til viðeigandi breytingar á ýmsum lögum er heyra undir málefnasvið mennta- og menningarmálaráðuneytis svo að þau samræmist kröfum reglugerðar (ESB) 2016/679 eins og hún hefur verið leidd í íslensk lög með ákvæðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018. Ætlunin er að tryggja réttindi einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga þannig að hún samræmist persónuverndarlöggjöfinni og að hlutaðeigandi stjórnvöld sem vinna með persónuupplýsingar hafi fullnægjandi heimildir til vinnslunnar. Í nýrri persónuverndarlöggjöf eru gerðar auknar kröfur til ábyrgðar- og vinnsluaðila um skýrar heimildir til vinnslu persónuupplýsinga. Lagt verður mat á þörf nýrra heimilda til vinnslu persónuupplýsinga í löggjöf, þar sem þær mögulega skortir, en einnig má gera ráð fyrir að einhver gildandi ákvæði þurfi að vera skýrari svo vinnslan samræmist persónuverndarlöggjöfinni, sérstaklega lagaákvæði um vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga. Áformuð lagasetning mun styðja við grundvallarréttindi um persónurétt samkvæmt 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands.

Samráð hefur nú þegar verið haft við Samband íslenskra sveitarfélaga og stofnanir sem heyra undir mennta- og menningarmálaráðuneyti og fyrirhugað er áframhaldandi samráð í samráðsgátt stjórnvalda.

Í frumvarpi dómsmálaráðherra um innleiðingu reglugerðar (ESB) 2016/679 sem varð að lögum nr. 90/2018 var ekki mælt fyrir um efnislegar breytingar á sérlögum sem heyra undir málefnasvið annarra ráðuneyta. Af þeim sökum er nauðsynlegt að leggja fram sérstakt lagafrumvarp um viðeigandi breytingu á lögum sem heyra undir málefnasvið mennta- og menningarmálaráðuneytis.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira