Hoppa yfir valmynd
7. janúar 2020 Heilbrigðisráðuneytið

Reglubundin bólusetning barna við hlaupabólu og bólusetning við kíghósta fyrir áhættuhópa

Öll börn sem fædd eru 1. janúar 2019 eða síðar eiga nú rétt á bólusetningu við hlaupabólu án endurgjalds. Reglugerð þessa efnis tók gildi 1. janúar síðastliðinn. Reglugerðin kveður einnig á um bólusetningu við kíghósta fyrir sérstaka áhættuhópa og mælir sóttvarnalæknir með slíkum bólusetningum fyrir barnshafandi konur.

Bólusetningum barna er ætlað að verja börn gegn alvarlegum smitsjúkdómum. Í reglugerð um bólusetningar á Íslandi er nú kveðið á um að börnum með lögheimili hér á landi skuli boðin bólusetning við tólf tilgreindum sjúkdómum þeim að kostnaðarlausum, að hlaupabólu meðtalinni. Þetta eru barnaveiki, hettusótt, H. influenzsae b, kíghósti, mænusótt, mislingar, rauðir hundar, stífkrampi, meningókokkasjúkdómur C, pneumókokkasjúkdómur, leghálskrabbamein af völdum HPV veirunnar og hlaupabóla.

Samkvæmt reglugerð um bólusetningar hefur öllum sem eru í sérstökum áhættuhópum og sóttvarnalæknir tilgreinir verið gefinn kostur á bólusetningum gegn pneumókokkasýkingum og gegn árstíðabundinni inflúensu. Með breytingunni sem tók gildi um áramót á það nú einnig við um kíghósta og hefur sóttvarnalæknir sem fyrr segir mælt með bólusetningu við kíghósta fyrir barnshafandi konur. Bólusetning við kíghósta skal vera án endurgjalds.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum