Hoppa yfir valmynd
10. janúar 2020 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Undirbúningur vegna þjóðarleikvangs fyrir innanhússíþróttir hafinn

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra hefur skipað starfshóp til þess að gera tillögur um þjóðarleikvang fyrir innanhússíþróttir. Starfshópnum er ætlað að vinna forvinnu sem upplýsir betur hvernig vinna eigi eftir nýrri reglugerð um þjóðarleikvanga, afla upplýsinga um þarfir fyrir mannvirki til lengri tíma og greina mögulega nýtingu mannvirkja sem fyrir eru eða hvort ný mannvirki þarf til þess að geta staðið fyrir alþjóðlegum keppnum.

Guðmundur B. Ólafsson, formaður Handknattleikssambands Íslands verður formaður hópsins en í honum eiga einnig sæti: Hannes Sigurbjörn Jónsson formaður Körfuknattleikssambands Íslands, Lárus L. Blöndal forseti Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, Ómar Einarsson og Sif Gunnarsdóttir fyrir hönd Reykjavíkurborgar og Marta Guðrún Skúladóttir og Óskar Þór Ármannsson fyrir hönd mennta- og menningarmálaráðuneytis.

„Það er mér sönn ánægja að setja af stað þennan starfshóp með þessu frábæra fólki. Það er afar brýnt að fá úr því skorið hvernig við getum tryggt að aðstaða fyrir íþróttafólkið okkar sé sem best,“ segir ráðherra.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri fagnar því að þessi vinna sé farin af stað: „Þá er mikilvægt að þessi grunnur sem verður lagður leiði til ákvarðana. Um leið er mikilvægt að ríkið og sérsamböndin séu öll við borðið þegar þjóðarleikvangar eru annars vegar.”

Ráðgert er að starfshópurinn skili tillögum sínum til ráðherra fyrir 1. maí nk.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira