Hoppa yfir valmynd
10. janúar 2020

Verkefnisstjóri - innleiðingu nýrra Schengen upplýsingakerfa

Verkefnisstjóri við innleiðingu nýrra Schengen upplýsingakerfa – embætti ríkislögreglustjóra

Ríkislögreglustjóri óskar eftir að ráða metnaðarfullan einstakling í tímabundna stöðu verkefnisstjóra til tveggja ára við innleiðingu á nýjum Schengen upplýsingakerfum og rekstrarsamhæfingu þeirra við landamæradeild embættisins.

Hjá embætti ríkislögreglustjóra er nú unnið að því að innleiða tvö ný upplýsingakerfi sem Ísland er skuldbundið til að innleiða á grundvelli Schengen samstarfsins. Um er að ræða upplýsingakerfi vegna komu og brottfara inn á Schengen svæðið (Entry/Exit), sem áætlað er að verði tekið í gagnið á fyrsta ársfjórðungi 2022 sem og upplýsingakerfi um heimild til ferðar (ETIAS) sem verður innleitt 9 mánuðum síðar. Samhliða er unnið að rekstrarsamhæfingu nýrra og fyrirliggjandi kerfa samstarfsins. Starf verkefnisstjóra heyrir undir deildarstjóra landamæradeildar en verkefnið verður unnið í samstarfi við tölvudeild embættisins auk annarra deilda og önnur lögregluumdæmi.

Hlutverk landamæradeildar ríkislögreglustjóra er að tryggja heildstæða og samræmda nálgun við landamæravörslu ásamt því að styðja við lögregluembættin í verkefnum því tengdu. Deildin er  samhæfingaraðili í málefnum landamæra. Í því felst m.a. að annast gerð og uppfærslu á stefnu stjórnvalda í málefnum landamæra, koma á fót gæðaeftirliti samkvæmt stöðlum Schengen samstarfsins og gefa tilmæli um bætta framkvæmd auk þess að samræma innleiðingu á nýjum upplýsingakerfum Schengen samstarfsins sem tekin verða í notkun á næstu misserum. 

Um upplýsingakerfi um skráningu komu- og brottfara á Schengen-svæðið (Entry/Exit System) er fjallað í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 2017/2226. Megin tilgangurinn með kerfinu er að auka gæði landamæraeftirlits og reikna sjálfvirkt út tímalengd dvalar útlendings á Schengen-svæðinu. Um upplýsingakerfi um forskráningu og heimild til ferðar inn á Schengen-svæðið (ETIAS) er fjallað í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 2018/1240. Kerfið felur í sér forskoðun ferðamanna sem fer fram áður en þeir koma á ytri landamæri Schengen svæðisins og tekur til borgara þriðju ríkja sem undanþegnir eru vegabréfsáritanaskyldu. Reglugerðirnar teljast þróun á Schengen samstarfinu og er Ísland þannig skuldbundið til að innleiða umræddar reglugerðir. Þá liggur fyrir samþykkt reglugerð sem lýtur að rekstrarsamhæfingu nýrra og fyrirliggjandi kerfa samstarfsins (Interoperability). 

Helstu viðfangsefni
- Verkefnisstjórn á innleiðingu á fyrrgreindum upplýsingakerfum Schengen samstarfsins og samhæfingu þeirra. 
- Tillögu- og  áætlanagerð í umræddum verkefnum ásamt því að setja fram verkefna- og kostnaðaráætlanir.
- Þátttaka í vinnuhópum bæði innanlands og utan við innleiðingu á umræddum kerfum.
- Annast gerð framvinduskýrslna í samræmi við m.a. reglur um Innri öryggisjóð Evrópusambandsins.
- Þátttaka í alþjóðlegri samvinnu í málaflokkunum, einkum á vettvangi Schengen samstarfsins, þ.m.t. á vettvangi Tæknistofnunar Evrópusambandsins um rekstur stórra upplýsingatæknikerfa (eu-LISA). 
- Annast hagsmunagæslu fyrir Ísland á alþjóðavettvangi, m.a. með fundarsókn.
- Svarar fyrirspurnum og umbeðinni upplýsingagjöf.  

Menntunar og - hæfniskröfur
- Háskólamenntun sem nýtist í starfi.
- A.m.k. 3 ára starfsreynsla sem nýtist í starfi.
- Staðgóð þekking á upplýsingatækni er skilyrði.
- Reynsla af verkefnisstjórn er skilyrði.
- Þarf að geta sýnt sjálfstæði í vinnubrögðum og hafa góða hæfni í mannlegum samskiptum.
- Leiðtogahæfni, frumkvæði og metnaður í starfi.
- Þarf að hafa gott vald á íslensku og ensku, bæði í máli og ritun. 
- Þekking og/eða reynsla af störfum innan stjórnsýslu og/eða lögreglu er kostur.
- Reynsla af alþjóðasamstarfi, einkum á vettvangi Schengen samstarfsins og/eða Evrópusambandsins er kostur.

Umsóknir
Umsókn skal fylgja ferilskrá, afrit af prófskírteini og kynningarbréfi þar sem gerð er grein fyrir ástæðu umsóknar og rökstuðningur fyrir hæfni umsækjanda í starfið. Umsókn skal send til embættis ríkislögreglustjóra, Skúlagötu 21, Reykjavík eða á netfangið [email protected] merkt: Starf verkefnisstjóra við innleiðingu Schengen upplýsingakerfa í landamæradeild ríkislögreglustjóra.

Umsóknarfrestur er til og með 27 janúar nk. Æskilegt er að viðkomandi geti hafið störf við fyrsta hentugleika eða eftir nánara samkomulagi. Upplýsingar um starfið veita Jón Pétur Jónsson, deildarstjóri landamæradeildar, í síma 444 2500 eða Árni Albertsson, deildarstjóri tölvudeildar, í síma 444-2500 eða [email protected]

Ráðningakjör eru samkvæmt kjarasamningi fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og viðkomandi stéttarfélags. Starfshlutfall er 100% og heyrir starfið undir deildarstjóra landamæradeildar embættisins. Umsóknir sem berast eftir að umsóknarfresti lýkur verða ekki teknar til greina. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu hefur verið tekin.

Vakin er athygli á því að í 28. gr. a. lögreglulaga nr. 90/1996 er kveðið á um að engan má skipa, setja eða ráða til starfa hjá lögreglu sem hefur hlotið fangelsisdóm fyrir refsiverðan verknað sem framinn var eftir að hann varð fullra 18 ára eða sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem starfsmenn lögreglu verða almennt að njóta. Til þess að staðreyna þetta er lögreglu heimilt að afla upplýsinga úr sakaskrá og málaskrám lögreglu. 

Umsóknir munu gilda í 6 mánuði frá því að umsóknarfrestur rennur út, með vísan til 3. tl. 2. mgr. 2. gr. reglna nr. 464/1996 um auglýsingar á lausum störfum, með síðari breytingum, sem settar eru samkvæmt heimild í 2. mgr. 7. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.


Reykjavík, 10 janúar 2020
RíkislögreglustjóriEfnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira