Hoppa yfir valmynd
13. janúar 2020 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Grænbók um fjárveitingar til háskóla

Meginmarkmið stjórnvalda hvað varðar starfsemi á háskólastigi er að framsæknar og alþjóðlega samkeppnishæfar rannsóknastofnanir og háskólar skapi þekkingu, miðli henni og undirbúi nemendur til virkrar þátttöku í nútímaþekkingarsamfélagi og til verðmætasköpunar sem byggist á hugviti, nýsköpun og rannsóknum.

Meðal aðgerða í stefnu- og aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs er að auka gæði og skilvirkni í háskólastarfi með því að efla fjármögnun og endurskoða reglur um fjárveitingar til háskóla. Því hefur verið unnin grænbók um fjármögnun háskóla og er hún nú til umsagnar í Samráðsgátt stjórnvalda. Í henni er gerð grein fyrir núverandi fjárveitingakerfi, valmöguleikum við hönnun á nýju kerfi og settar fram lykilspurningar til að efla umræðu um stefnu um háskóla og hvaða fyrirkomulag fjárveitinga styðji best við innleiðingu á slíkri stefnu. Þar er einnig fjallað um hlutverk háskóla og núverandi stefnu, stöðu háskólakerfisins og háskólamenntunar. Farið er yfir mögulegar aðferðir við skiptingu fjár til háskóla og dæmi tekin frá samanburðarríkjum um útfærslu á fjárveitingum.

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra:
„Með reiknilíkaninu og öðrum aðferðum sem notaðar eru við útdeilingu fjármuna til háskólanna skapast hvatar sem hafa áhrif á nemendur og stofnanir. Reiknilíkön eru ákveðin leið til að hrinda stefnu í framkvæmd. Hér er því bæði tækifæri til að dýpka umræðu okkar um framtíð háskóla og háskólanáms hér á landi. Þegar reiknilíkan háskóla var innleitt á sínum tíma var áhersla stjórnvalda fyrst og fremst að efla háskólakerfið, stækka það og fjölga háskólamenntuðum hér á landi. Hvatarnir í því reiknilíkani eru í takt við þau markmið og í megindráttum gekk stefnan eftir: brautskráningum fjölgaði, námsframboð jókst, háskólum fjölgaði og rannsóknarstarf efldist. Hins vegar eru einnig fjölmargar áskoranir í háskólamenntun hér á landi: sumar alþjóðlegar, aðrar séríslenskar og enn aðrar sérstaklega tengdar sjálfu reiknilíkaninu. Í grænbókinni er gerð tilraun til að skilgreina þær og skapa samráðsgrundvöll um næstu skref,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Háskólakerfið hefur eflst mjög á undanförnum árum og kemur það m.a. fram í auknu framboði náms, ekki síst á framhaldsstigi, öflugri rannsóknarstarfsemi á mörgum sviðum og auknum alþjóðlegum tengslum og nemendaskiptum. Þegar skoðaðir eru alþjóðlegir mælikvarðar um háskóla, rannsóknir og nýsköpun má til dæmis sjá að Ísland er í öðru sæti á lista Efnahags- og framfarastofnunarinnar þegar kemur að alþjóðlegu samstarfi í vísindum (2015) og með hæst hlutfall kvenna meðal prófessora samkvæmt tölfræði framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (2018).

Hlutfall háskólamenntaðra hér á landi hefur hækkað töluvert á síðastliðnum árum. Árið 2018 höfðu 44% fólks á aldrinum 25-64 ára lokið háskólanámi miðað við 28% árið 2003. Í alþjóðlegum samanburði er hlutfall háskólamenntaðra svipað og í þeim ríkjum sem við berum okkur helst saman við.

Mynd: Hlutfall mannfjölda 25-64 ára sem lokið hefur háskólagráðu í nokkrum ríkjum OECD árið 2018.

Stefnt er að því að ljúka endurskoðun á reiknilíkani háskólastigsins á árinu 2020. Verkefni þetta er liður í mótun menntastefnu til ársins 2030 og aðgerð 5 í Stefnu og aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira