Hoppa yfir valmynd
16. janúar 2020 Heilbrigðisráðuneytið

Átakshópur skipaður vegna bráðamóttöku Landspítala

Landspítalinn í Fossvogi - myndMynd: Heilbrigðisráðuneytið -/ME

Átakshópur verður skipaður til að finna lausnir á brýnum vanda bráðamóttöku Landspítala og hrinda þeim í framkvæmd. Þetta er sameiginleg niðurstaða fundar heilbrigðisráðherra, landlæknis og forstjóra Landspítalans sem haldinn var í heilbrigðisráðuneytinu í dag.

Á fundinum var fjallað um aðstæður á bráðamóttökunni, vandamálin sem þar er helst við að etja og aðgerðir til að leysa vandann til skemmri og lengri tíma. Landlæknir afhenti heilbrigðisráðherra í gær minnisblað varðandi stöðuna og var efni þess kynnt fyrir forstjóra sjúkrahússins og þeim stjórnendum sjúkrahússins sem sátu fundinn í dag auk hans.

Í minnisblaði landlæknis segir að þrátt fyrir fjölda aðgerða sem gripið hafi verið til af hálfu heilbrigðisráðuneytisins og Landspítalans hafi staðan á bráðamóttökunni ekki batnað. Allt of margir sjúklingar bíði þar eftir innlögn á deildir spítalans. Telur embættið meginvandann vera skort á hjúkrunarrýmum og vöntun á hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum á legudeildum. Alls eru nú 40 rúm lokuð á bráðalegudeildum spítalans vegna skorts á hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum en voru 35 fyrir ári.

Embætti landlæknis beinir fimm tillögum til heilbrigðisráðherra varðandi bráðamóttöku Landspítalans eins og fram kemur í meðfylgjandi minnisblaði og snýr sú fyrsta að því að leysa úr bráðum vanda með tafarlausu samráði og aðgerðum.

Yfirlýsing heilbrigðisráðherra, landlæknis og forstjóra Landspítala um næstu skref

 

Fjölgun hjúkrunarrýma, efling heilsugæslunnar, fjölgun dagdvalar- og endurhæfingarrýma ásamt aukinni heimahjúkrun eru allt þættir sem létt geta álagi af bráðamóttöku Landspítlans. Þegar hefur mikið verið gert til að efla þessa þætti og er áhrifanna þegar farið að gæta. Innan fárra vikna verður opnað nýtt tæplega 100 rýma hjúkrunarheimili við Sléttuveg í Reykjavík og er ljóst að tilkoma þess mun hafa  áhrif til að létta á útskriftarvanda Landspítalans. Ekki verður unað við það ástand sem er á bráðamóttöku Landspítalans frá degi til dags og því eru tafarlausar aðgerðir óhjákvæmilegar. Með stofnun sérstaks átakshóps með víðtækt umboð til að leysa brýnan vanda teljum við unnt að koma í veg fyrir að sjúklingar ílengist á bráðamóttökunni og bæta þannig aðstæður og öryggi sjúklinga og starfsfólks.

Heilbrigðisráðuneytinu
16. janúar 2020

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum