Hoppa yfir valmynd
21. janúar 2020 Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Lýsing vinnu við landgræðsluáætlun í samráðsgátt

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur kynnt í samráðsgátt stjórnvalda drög að lýsingu fyrir gerð landgræðsluáætlunar.

Í landgræðsluáætlun verður m.a. mótuð framtíðarsýn fyrir aukna jarðvegsvernd, endurheimt vistkerfa og sjálfbæra landnýtingu til langs tíma, markmið verða skilgreind og aðgerðaáætlun sett fram þar sem mælikvarðar á árangur verða skilgreindir. Í áætluninni verður gerð grein fyrir:

  1. Hvernig skuli stuðla að framförum í mati á jarðvegsvernd.
  2. Hvernig gæði landsins séu best varðveitt.
  3. Hvernig nýting lands geti sem best stutt við atvinnu og byggðir í landinu í takt við markmið stjórnvalda.
  4. Hvernig best sé að efla og endurheimta röskuð vistkerfi.
  5. Tillögum um breytingu á nýtingu lands þar sem það á við (t.d. friðun fyrir ákveðinni landnýtingu o.s.frv.).

Fjallað verður um möguleika á endurheimt vistkerfa á stórum samfelldum svæðum, einkum birki- og víðikjarrs og endurheimt votlendis og sjálfbæra nýtingu lands. Þá verður hugað að endurheimt vistkerfa á friðlýstum svæðum þar sem það á við og nýtingu lífrænna efna, s.s. moltu og húsdýraáburðar, til landgræðslu. Horft verður til samlegðaráhrifa landgræðslu, loftslagsmála og líffræðilegrar fjölbreytni og fjallað um notkun plöntutegunda í landgræðslu. Einnig verður skoðað hvernig auka megi þátttöku einstaklinga, félagasamtaka, sjálfboðaliða, einkaaðila o.fl. í landgræðslustarfinu.

Drög að lýsingu eru unnin af verkefnisstjórn um gerð landgræðsluáætlunar. Umsögnum um lýsingu vinnu við landgræðsluáætlun skal skilað í samráðsgátt stjórnvalda og er frestur til þess til 3. mars næstkomandi.

Landgræðsluáætlun - drög að lýsingu í samráðsgátt


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira