Hoppa yfir valmynd
23. janúar 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Félags- og barnamálaráðherra skrifar undir samkomulag með Afstöðu, félagi fanga og annarra áhugamanna um bætt fangelsismál og betrun

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra og Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, félags fanga og annarra áhugamanna um bætt fangelsismál og betrun. - mynd

Afstaða, félag fanga og annarra áhugamanna um bætt fangelsismál og betrun, var stofnað af föngum á Litla hrauni þann 23. janúar 2005. Markmið félagsins er að vinna að tækifæri fyrir fanga til ábyrgðar, endurreisnar og að búa þeim skilyrði til farsællar endurkomu út í samfélag manna. Í dag, 23. janúar 2020 fagnar félagið því 15 ára afmæli sínu.

Í tilefni af þessum áfanga veitti Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, félaginu styrk að fjárhæð kr. 2.000.000.

Málefni fanga hafa verið mikið í umræðunni undanfarið. Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, skipaði í júní 2018 starfshóp um bættar félagslegar aðstæður einstaklinga sem lokið hafa afplánun refsingar í fangelsi og tók ráðherra formlega við skýrslu hópsins þann 12. desember sl.

Við gerð skýrslunnar var meðal annars horft til fyrirkomulags á Norðurlöndunum og í Englandi en að mati starfshópsins er ljóst að bataúrræði séu ekki tæk nema horft sé á heildrænan hátt á allt tímabilið, frá því að dómur er kveðinn upp þar til eftir afplánun. Megináhersla verði lögð á menntun, starfsendurhæfingu, sálfræðiþjónustu, félagsráðgjöf og í þeim tilvikum sem það á við, fíkniráðgjöf. Í skýrslunni er einnig lagt til að boðið verði upp á fjölbreytta og einstaklingsmiðaða þjónustu og ráðgjöf á meðan beðið er eftir betrunarvist. Þjónustan verði bæði fyrir fanga og fjölskyldur þeirra, auk þess sem fjölbreytt úrræði standi þeim til boða að vist lokinni.

Ríkisstjórn Íslands hefur samþykkt að í byrjun árs 2020 verði settur á fót stýrihópur undir formennsku félagsmálaráðuneytisins með breiða skírskotun sem falið verði að fylgja eftir tillögum skýrslunnar og mun Afstaða eiga fulltrúa í þeim stýrihópi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum