Hoppa yfir valmynd
24. janúar 2020 Innviðaráðuneytið

Ný lög um póstþjónustu hafa tekið gildi

Ný heildarlög um póstþjónustu tóku gildi um áramót. Um er að ræða heildarendurskoðun á löggjöf frá árinu 2002.

Ný lög um póstþjónustu, nr. 98/2019, fela í sér afnám einkaréttar á póstþjónustu og að tryggja skuli aðgang að alþjónustu, skilgreindri lágmarksþjónustu óháð staðsetningu og á viðráðanlegu verði. Markmið laganna er að stuðla að hagkvæmri, virkri og áreiðanlegri póstþjónustu um land allt og til og frá landinu, m.a. með því að tryggja notendum aðgang að alþjónustu eins og hún er skilgreind á hverjum tíma og með því að efla samkeppni á markaði fyrir póstþjónustu.

Helstu nýmæli í nýjum póstlögum

  • Rekstur póstþjónustu í atvinnuskyni er ekki lengur leyfisskyld starfsemi hér á landi heldur skráningarskyld. Lögaðilar innan EES-svæðisins eða í aðildarríkjum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar fá því almenna heimild til að veita póstþjónustu hér á landi að uppfylltum skilyrðum laganna. Öll aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu hafa þegar afnumið einkarétt ríkis á póstþjónustu. 
  • Alþjónusta er skilgreind sem lágmarksþjónusta sem allir notendur póstþjónustu á landinu eiga rétt á, óháð staðsetningu og á viðráðanlegu verði. Alþjónusta nær bæði til póstsendinga innanlands og til annarra landa. Í alþjónustu felst aðgangur að afgreiðslustað og póstkössum en einnig skylda til að tryggja að póstkassar sem falla undir alþjónustu séu tæmdir a.m.k. tvisvar í viku eða í samræmi við fjölda dreifingardaga á viðkomandi svæði.
  • Sérstakt ákvæði um óumbeðnar fjöldasendingar er nýmæli í lögunum. Póstrekendum er skylt að virða merkingar sem kveða á um að viðtakandi óski ekki eftir óumbeðnum fjöldasendingum, svo sem fjölpósti, fríblöðum eða almennu kynningarefni frá fyrirtækjum. Póstrekendur eiga að halda skrá yfir þá sem vilja ekki fjöldasendingar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum