Hoppa yfir valmynd
30. janúar 2020 Innviðaráðuneytið

Undirbúningur hafinn um útfærslu á greiðsluþátttöku í innanlandsflugi

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, hefur falið verkefnahópi að útfæra framkvæmd greiðsluþátttöku ríkisins í farmiðakaupum íbúa á landsbyggðinni í innanlandsflugi. Fyrirhuguð niðurgreiðsla er í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um að gera innanlandsflug að hagkvæmari kosti fyrir íbúa landsbyggðanna.

Fyrirmyndin er meðal annars sótt í framkvæmd skoskra stjórnvalda á þessu sviði (Air Discount Scheme). Í hópnum eru fulltrúar Vegagerðarinnar, Sambands íslenskra sveitarfélaga og þriggja flugfélaga í innanlandsflugi.

Markmiðið með greiðsluþátttökunni er að styðja við landsbyggðina og bæta aðgengi landsmanna að miðlægri þjónustu á höfuðborgarsvæðinu með því að gera innanlandsflug að aðgengilegri kosti í samræmi við áherslur samgönguáætlunar og flugstefnu.

270 km frá höfuðborgarsvæðinu
Í verkefnisáætlun hópsins segir að greiðsluþátttaka skuli taka til allra íbúa sem eiga lögheimili á svæðum í a.m.k. 270 km fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu og/eða svæða þar sem aðrar sérstakar aðstæður kalla á slíka þátttöku svo sem eyja án vegasambands.

Greiðsluþátttaka mun takmarkast við ferðir sem farnar eru í einkaerindum og á eigin kostnað umsækjanda. Miðað skal við tiltekinn fjölda ferða á mann á ári og hámarkskostnað á ferð. Í leiðbeiningum til hópsins er gert ráð fyrir 40% greiðsluþátttöku ríkisins. Stefnt er að því að greiðsluþátttaka hefjist 1. september 2020 og til ársloka verði hægt að nýta niðurgreiðslu í einni ferð fram og til baka. Frá og með 1. janúar 2021 skuli greiðsluþátttaka miðast við þrjár ferðir fram og til baka.

Greiðsluþátttakan tekur ekki til flugleggja sem ríkið niðurgreiðir með öðrum hætti á grundvelli þjónustuskyldu (s.s. PSO-flug). 

Hópnum er falið að útfæra framkvæmd verkefnisins, gera tillögur að nauðsynlegar breytingum á bókunarkerfum flugrekenda, setja upp verklag um endurgreiðslu til flugrekenda og greiðslukerfi og verklag um endurskoðun og eftirlit með að greiðslur séu samkvæmt reglum.

Framkvæmd greiðsluþátttökunnar skal vera í samræmi við skuldbindingar EES-samningsins. Áætlaður heildarkostnaður ríkisins fyrsta árið er áætlaður 200 milljónir kr.

Í hópnum sitja Sólveig J. Guðmundsdóttir frá Vegagerðinni, sem jafnframt er formaður, Árni Gunnarsson (Air Iceland Connect), Friðrik Adolfsson (Norlandair), Jóna Árný Þórðardóttir (Samband íslenskra sveitarfélaga) og Unnar Hermannsson (Flugfélagið Ernir). Tengiliður við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið er Ólafur Kr. Hjörleifsson.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum