Hoppa yfir valmynd
2. febrúar 2020 Dómsmálaráðuneytið

Breytingar á málsmeðferðartíma

Samkvæmt 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða að tilteknum skilyrðum uppfylltum, hafi hann sótt um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða.

Nýlega hefur athygli dómsmálaráðherra verið vakin á því að í einstökum málum geti tíminn orðið  óhæfilega langur.

Dómsmálaráðherra vill leggja áherslu á að málsmeðferðartími í verndarkerfinu sé styttur eins og frekast er kostur. Töluverður árangur náðist í fyrra við að hraða meðferð mála hjá Útlendingastofnun. Mikilvægt er að halda áfram á þeirri braut. Sérstaklega þarf að leggja áherslu á að forgangsraða í þágu barna og marka slíkri málsmeðferð eins stuttan tíma og kostur er.

Ráðherra hefur heimild á grundvelli 23. gr. laga um útlendinga til að setja í reglugerð nánari ákvæði um málsmeðferð Útlendingastofnunar, kærunefndar útlendingamála og lögreglu, m.a. heimildir til að úrskurða um mál á einfaldan og skilvirkan hátt með vísan til fyrri fordæma. Enn fremur er ráðherra heimilt að mæla nánar fyrir um málsmeðferðartíma 

Í ljósi alls ofangreinds mun dómsmálaráðherra kynna í ríkisstjórn áform um að stytta hámarkstíma málsmeðferðar úr átján mánuðum í sextán í hælismálum þar sem börn eiga í hlut. Standa vonir til þess að þetta verði aðeins fyrsta skrefið í að stytta meðferð slíkra mála. Ráðherra leggur áherslu á að þetta sé hámarkstími og málsmeðferð eigi eigi alla jafna að taka skemmri tíma. Vilji löggjafans og stjórnvalda er skýr. Taka ber sérstakt tillit til hagsmuna barna við afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd.

Þingmannanefnd um málefni útlendinga fundaði fyrir helgi um stöðu barna og fólks í viðkvæmri stöðu. Dómsmálaráðherra hefur falið nefndinni að fylgja þeirri vinnu áfram eftir. 

Ísland tekur nú á móti töluvert miklum fjölda umsókna um vernd. Ljóst er að til að ofangreind markmið um málshraða náist þarf bæði að tryggja kerfinu næga fjármuni til að valda verkefninu og jafnframt að tryggja að efnisreglur hér á landi séu til þess fallnar að greina hratt á milli þeirra sem þarfnast verndar og annarra.

Þessar breytingar verða útfærðar nánar í reglugerð. Þegar hefur verið ákveðið að fresta brottvísun barna í þeim málum þar sem málsmeðferð hefur farið yfir sextán mánuði.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum