Hoppa yfir valmynd
3. febrúar 2020 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Hvatt til virkrar þátttöku vísindasamfélagsins og íbúa á norðurslóðum

Ísland og Japan standa sameiginlega að alþjóðlegum fundi vísindamálaráðherra um rannsóknasamstarf á norðurslóðum í nóvember nk. Undirbúningur er langt á veg kominn og á dögunum fór fram kynningarfundur um áherslur ráðherrafundarins með fulltrúum sendiráða í Reykjavík og samstarfsaðilum úr vísindasamfélaginu. Í aðdraganda fundarins í Tókýó er lögð áhersla á að virkja vísindasamfélagið og íbúa á norðurslóðum til að fá fram þeirra sýn og sjónarmið sem geta nýst við mótun stefnu og aðgerða stjórnvalda. Leiðarljós ráðherrafundarins eru samvinna, þátttaka, gagnsæi og nýsköpun.

„Það eru miklir hagsmunir fólgnir í því fyrir Ísland og íslenska vísindamenn að taka þátt í alþjóðlegu vísindasamstarfi tengdu norðurslóðum,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra sem ávarpaði fundinn. „Íslenskir vísindamenn og stofnanir búa yfir dýrmætri reynslu og þekkingu á fjölmörgum sviðum slíkra rannsókna, má þar sem dæmi nefna rannsóknir á samfélagslegum áhrifum loftslagsbreytinga, jöklum og breytingum á vistkerfi sjávar. Mikilvægi samtals milli vísindasamfélagsins og stjórnvalda eykst stöðugt og það er brýn þörf á auknu alþjóðlegu vísindasamstarfi á norðurslóðum. Ráðherrafundirnir eru kærkominn vettvangur fyrir okkur til að miðla þekkingu, ræða aðgerðir og ekki síst forgangsraða verkefnum.“

Ráðherrafundurinn fer fram dagana 21.-22. nóvember í Tókýó. Fyrsti ráðherrafundur um vísindi norðurslóða var haldinn að frumkvæði Bandaríkjanna árið 2016 í Washington. Annar fundur fór fram í Berlín árið 2018 en hann var skipulagður í samstarfi Þýskalands, Finnlands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Fundurinn í Japan verður því þriðji fundur vísindamálaráðherranna um málefni norðurslóða, ASM3 (e. Arctic Science Ministerial 2020).

Nánar má fræðast um verkefnið á vefnum asm3.org.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

14. Líf í vatni
9. Nýsköpun og uppbygging
7. Sjálfbær orka
17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum