Hoppa yfir valmynd
6. febrúar 2020 Dómsmálaráðuneytið

Ákall til aðgerða gegn ofbeldi í nánum samböndum

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir sat í pallborði fundar OECD þar sem ræddar voru aðgerðir gegn ofbeldi í nánum samböndum - mynd

Dómsmálaráðherra sat fund OECD í París dagana 5.- 6. febrúar sl. þar sem 18 ríki samþykktu ákall til aðgerða gegn ofbeldi í nánum samböndum. Ráðherra sat í pallborði á fundinum og greindi þar meðal annars frá árangri Íslands af verklagi lögreglu og lagaákvæði um ofbeldi í nánum samböndum. Ráðherra gat þess að Alþingi hafi nýlega samþykkt heildstæða aðgerðaáætlun gegn ofbeldi og afleiðingum þess sem nær til ársins 2022. Markmið hennar er að vinna að forvörnum og fræðslu, hugað verði að bættum viðbrögðum og málsmeðferð í réttarvörslukerfinu og unnið verði að valdeflingu þolenda með þverfaglegt starf að leiðarljósi.

Í máli ráðherra kom fram að mikil vakning hefði verið hér á landi á þessu sviði sem birst hefur í umbótum á löggjöf, bættu verklagi við meðferð þessara mála innan réttarvörslukerfisins, aukinni vernd fyrir þolendur fyrir ágangi brotamanna og einfaldari meðferð nálgunarbanns og  auknum skilningi á þörfum þolenda brotanna. Ráðherra áréttaði mikilvægi ráðgjafamiðstöðva eins og Bjarkahlíðar og Bjarmahlíðar þangað sem þolendur heimilisofbeldis geta sótt sér ráðgjöf og aðstoð sér að kostnaðalausu. Slík starfsemi væri einnig mikilvæg fyrir aðgang lögreglu að úrræðum til að hjálpa þolendum sem þurfa og vilja.

Þá sagði ráðherra afar mikilvægt að tryggja að lögreglan, sem oftast mætir fyrst á vettvang, hafi sérþekkingu á afleiðingum heimilisofbeldis til að geta mætt þolendum brotanna af skilningi og nærgætni á vettvangi. Það verði gert með því að tryggja að menntun lögreglumanna feli í sér kunnáttu á eðli og einkennum þessara brota og afleiðingum þeirra á þolendurna. Mikilvægt væri að tryggja endurmenntun lögreglumanna til að stuðla að færni þeirra og hæfni til að fást við þennan viðkvæma málaflokk.

Loks sagði dómsmálaráðherra mikilvægt að ríki hefðu sérstakt ákvæði í sinni refsilöggjöf sem lýsir ofbeldi í nánu sambandi refsivert. Ísland innleiddi slíkt ákvæði í sín hegningarlög árið 2016. Með því eru þau skilaboð gefin til samfélagsins að ofbeldi í nánum samböndum verði ekki liðið og að slík brot séu ekki einkamál aðilanna.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum