Hoppa yfir valmynd
7. febrúar 2020 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Jákvætt samstarf heimilis, skóla og samfélags: Heimsókn í Norðlingaskóla

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra spjallar við nemendur í Norðlingaskóla - mynd

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra heimsótti Norðlingaskóla í Norðlingaholti í Reykjavík á dögunum. Ráðherra kynnti sér starfsemi skólans, hitti fulltrúa nemenda og fékk kynningu á verkefninu „Hjólakraftur fyrir 1.-10. bekk“ sem hlaut Foreldraverðlaun samtakanna Heimilis og skóla.

Samtökin Heimili og skóli eru landssamtök foreldra sem starfrækt hafa verið í tæp 30 ár. Í heimsókninni var skrifað undir samstarfssamning ráðuneytisins við samtökin en meðal verkefna sem samtökin sinna samkvæmt honum eru símaráðgjöf, þjónustu- og upplýsingagjöf við foreldraráð og foreldrafélög, m.a. með útgáfu á leiðbeiningum og kynningarfundum og þátttaka í stefnumótun stjórnvalda.

Markmið verðlaunaverkefnisins „Hjólakraftur fyrir 1.-10. bekk“ er að auka hreyfingu meðal nemenda og foreldra þeirra með sérstakri áherslu á hjólreiðar. Kapp er lagt á að ná til þeirra nemenda sem taka minnstan þátt í skólaíþróttum, búa við erfiðar félagslegar aðstæður eða eru nýir íbúar í Reykjavík með erlendan bakgrunn. Verkefnið er unnið í samstarfi þjónustumiðstöðvar Árbæjar og Grafarholts, Hjólakrafts og Norðlingaskóla.

„Við vitum að vellíðan og árangur fara saman – ekki síst hjá nemendum og í skólastarfi. Verkefni eins og Hjólakraftur stuðlar að virkni og aukinni hreyfingu og fellur vel að markmiðum um heilsueflingu, umhverfisvænar samgöngur og þátttöku í félagsstarfi óháða efnahag. Síðan var reglulega gaman að kynnast fjölbreyttu starfi Norðlingaskóla og þeirri grósku sem þar er í notkun stafrænnar tækni, nemendalýðræði og heilsueflingu,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Hlutverk Foreldraverðlauna Heimilis og skóla er að vekja athygli á mikilvæga starfi sem fram fer innan leik-, grunn- og framhaldskóla og þeim mörgu verkefnum sem stuðla að öflugu jákvæðu samstarfi heima, skóla og samfélagsins.

  • Mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja D. Alfreðsdóttir og formaður Heimilis og skóla, Sigrún Edda Eðvarðsdóttir, skrifa undir styrktarsamning
  • Nemendur í smíðastofu Norðlingaskóla
  • Frá kynningu í Norðlingaskóla
  • Aðalbjörg Ingadóttir skólastjóri Norðlingaskóla og Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

 Heimsmarkmið sameinuðu þjóðanna - Heilsa og vellíðan

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira