Hoppa yfir valmynd
11. febrúar 2020 Félagsmálaráðuneytið

Velferð barna í forgrunni við skilnað foreldra á Fljótsdalshéraði

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, og Björn Ingimundarson, bæjarstjóri á Fljótsdalshéraði við undirritun samkomulagsins. - mynd

Félags- og barnamálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason eyddi gærdeginum austanlands og ritaði, ásamt Birni Ingimundarsyni, bæjarstjóra á Fljótsdalshéraði, undir samkomulag um þátttöku sveitarfélagsins í tilraunaverkefni á vegum félagsmálaráðuneytisins um framkvæmd skilnaðarráðgjafar. Um er að ræða annað sveitarfélagið á Íslandi sem hefur slíkt tilraunaverkefni en nýlega ritaði Ásmundur Einar undir sambærilegt samkomulag við Hafnarfjarðarbæ.

Fljótsdalshérað mun, ásamt Hafnarfjarðarbæ, og í samstarfi við félagsmálaráðuneytið, innleiða og þróa nýtt vinnulag sem hefur að markmiði  að koma í veg fyrir og/eða draga úr ágreiningi foreldra í skilnaðarferli. Verkefnið snýr annars vegar að aðgangi foreldranna að rafrænu námskeiði og hins vegar að viðtalsráðgjöf sérfræðings félagsþjónustu. Félagsmálaráðuneytið tryggir innleiðingu verkefnisins hvað varðar kostnað vegna samninga, annars vegar við danska fyrirtækið Samarbejde Efter Skilsmisse (SES) og hins vegar við íslenska sérfræðinga sem hafa munu umsjón með innleiðingu verkefnisins á Íslandi. 

„Ég hef frá upphafi vinnu minnar í málefnum barna litið til þess sem er að gerast hér á Fljótsdalshéraði, en hér hefur verið innleitt og notað með góðum árangri svokallað Austfjarðamódel. Í því verkefni eru helstu áherslur snemmbær stuðningur við börn og fjölskyldur þeirra, forvarnir og samvinna í teymum með áherslu á samstarf mismunandi fagstétta og stofnana. Þessi nálgun hefur sýnt sig að hafa jákvæð áhrif á heilsu og líðan þeirra sem þjónustunnar njóta en einna mikilvægast er að grípa snemma inn í, sérstaklega í málefnum barna, enda margt sem getur átt sér stað á stuttum tíma hvað börn varðar. Ég vona að nýtt verklag í skilnaðarmálum þar sem réttindi barna og velferð þeirra verða í forgrunni, og einblínt er á forvarnir og snemmbæran stuðning, smellpassi inn í þessa framsæknu hugsun sem þegar er til staðar hvað varðar börn og fjölskyldur hér á svæðinu“ sagði Ásmundur Einar við undirritunina.

,,Það er afar gleðilegt að hafa tækifæri til þess að taka þátt í þessu tilraunaverkefni, sem ég tel að falli vel inn í önnur verkefni sem við erum að vinna hér fyrir austan, til að mynda Austfjarðamódelið. Ég vonast til þess að sjá þetta verkefni ganga vel og að það muni hafa jákvæði áhrif á þær fjölskyldur sem munu taka þátt í því", sagði Björn við undirritunina.

Verkefnið er að danskri fyrirmynd, en eftir nýlegar breytingar á dönskum skilnaðarlögum þurfa allir foreldrar, sem sækja um leyfi til skilnaðar að borði og sæng, og eiga saman börn undir 18 ára aldri, að taka námskeið um áhrif skilnaða á börn. Samkvæmt rannsóknum sem framkvæmdar hafa verið hefur sú framkvæmd þegar gefið mjög góða raun, en andleg líðan foreldra sem tekið hafa námskeiðið er merkjanlega betri en þeirra sem gerðu það ekki á rannsóknartímabilinu. Þá hefur námskeiðið ýtt undir betri foreldrasamvinnu og meðal annars leitt til þess að foreldrar sem gengið hafa gegnum umrætt námskeið taka töluvert færri veikindadaga frá störfum sínum en ella. Allt þetta bendir til þess að námskeið sem þetta komi foreldrum og börnum þeirra til góða.

Til að byrja með verður um tilraunaverkefni hérlendis að ræða í samstarfi við nokkur sveitarfélög. Hafnarfjörður og Fljótsdalshérað hafa nú ritað undir formlegt samkomulag um verkefnið og eru nú að vinna að innleiðingu þess. Ef vel tekst til mun svo litið til þess hvernig beri að útfæra verkefnið hérlendis til framtíðar.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira