Hoppa yfir valmynd
13. febrúar 2020 Dómsmálaráðuneytið

Breyting á áfengislögum í samráðsgátt

Frumvarp sem lýtur að því að heimila innlendum netverslunum að selja áfengi til jafns við erlendar netverslanir hefur verið birt í samráðsgátt stjórnvalda.

Með frumvarpinu er heimilað að starfrækja vefverslun með áfengi í smásölu til neytenda. Þannig verði heimiluð sala áfengis í gegnum verslanir sem starfræktar eru á netinu, svokallaðar vefverslanir. Í áformaskjali sem birt var á samráðsgátt í lok nóvember sl. var einnig boðuð breyting hvað varðar sölu minni áfengisframleiðanda á framleiðslustað. Í frumvarpi þessu er eingöngu lögð til undanþága sem varðar sölu innlendra vefverslana með áfengi en unnið verður áfram að frumvarpi til breytinga í þá vegu að heimila minni áfengisframleiðendum sölu á eigin framleiðslu á framleiðslustað.

Vefverslun með áfengi mun að meginstefnu fara fram með tvennum hætti, verði frumvarpið að lögum. Annað hvort munu neytendur sækja vöruna á starfsstöð leyfishafans eða fá vöruna senda á þann stað sem þeir tiltaka, í flestum tilvikum heimili sitt. Vert er að hafa í huga að neytendur geta nú þegar fengið áfengi sent heim að dyrum erlendis frá og gilda engar sérstakar reglur um það fyrirkomulag. Ljóst er að þegar heimsending á áfengi á sér stað, mun milligönguaðili oft sjá um póstsendinguna. Í ljósi þessa er í frumvarpinu kveðið á um strangari kröfur til sönnunar á aldri viðtakanda en viðtakandinn þarf í öllum tilvikum að framvísa sönnun þess efnis að hann hafi náð 20 ára aldri. Brot á þessu geta leitt til leyfissviptingar og/eða bakað þeim aðila refsiábyrgð sem stendur að sölu og eða afhendingu vörunnar. Þá þarf afhending áfengisins að fara fram á ákveðnum tímum sólarhringsins og má ekki fara fram á tilteknum hátíðar- og helgidögum.

Nánari upplýsingar má finna á samráðsgátt stjórnvalda

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum