Hoppa yfir valmynd
13. febrúar 2020 Forsætisráðuneytið

Ræða Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, á Viðskiptaþingi 2020

Kæru gestir á Viðskiptaþingi!

Það er að venju heiður og ánægja að vera hér á Viðskiptaþingi sem er helgað þeim málum sem fela í sér stærstu áskoranir samtímans; grænu málunum og loftslagsvánni. Ég held raunar að ég hafi aldrei talað á þessu þingi án þess að tala um loftslagsbreytingarnar og þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir þeirra vegna.

Í desember 2015 undirgengumst við Íslendingar Parísarskuldbindingarnar. Parísarsamkomulagið skyldar þær 195 þjóðir sem skrifuðu undir til að vinna saman að því að halda hnattrænni hlýnun af mannavöldum innan 2°C marksins (miðað við hitastig fyrir iðnvæðingu), með aukamarkmið að reyna að stefna að því að halda því innan 1,5°C. Það inniber líka að það þarf að stoppa aukningu í losun gróðurhúsalofttegunda eins fljótt og hægt er og ná jafnvægi á milli losunar og bindingar.

Þetta sem ég sagði núna hljómar sakleysislega og ekkert sérstaklega flókið. En um leið og Parísarfundurinn markaði ákveðin tímamót í alþjóðlegu samstarfi í baráttunni gegn loftslagsvánni og vakti bjartsýni í þessum málum, lagði hann okkur ríkar skyldur á herðar. Og það hafa ekki allar þjóðir viljað standa undir þeim skyldum. Þannig ákvað núverandi Bandaríkjaforseti að draga Bandaríkin út úr Parísarsamkomulaginu sem voru mikil vonbrigði því árangur í loftslagsmálum byggist fyrst og fremst á alþjóðlegu samstarfi.

En það að einn hætti við gerir ábyrgð okkar hinna ekki minni. Til að ná þeim markmiðum sem við ætlum okkur að ná þurfum við að draga úr losun en miðað við tölur frá árinu 2017 sem nýlega hafa verið kynntar losa Íslendingar mest allra Evrópuþjóða. Við getum yljað okkur við að á fyrri hluta 20. aldar tókum við skynsamlegar ákvarðanir, til dæmis þegar við ákváðum að byggja upp hitaveituna, sem hefur gefið okkur ákveðið forskot í þeim efnum en Austurbæjarskóli var fyrsta húsið sem var upphitað með heitu vatni. Á öðrum sviðum er gríðarlegt verk fyrir höndum.

Kæru gestir. Það er aftur kominn tími afgerandi ákvarðana. Stjórnvöld kynntu fyrstu fjármögnuðu aðgerðaáætlunina gegn loftslagsvánni haustið 2018 og framkvæmd hennar stendur yfir. Hún fól í sér tvö lykilmarkmið: Að uppfylla markmið Parísarsamkomulagsins og að Ísland verði kolefnishlutlaust ekki seinna en 2040. Hún fól sömuleiðis í sér tvo lykilþætti; orkuskipti í samgöngum og stóraukna kolefnisbindingu. Þar var boðað að við myndum hætta að flytja inn bensín- og díselbíla 2030, stjórnvöld myndu beita sér fyrir innviðauppbyggingu fyrir rafbíla og önnur farartæki sem ganga fyrir endurnýjanlegum orkugjöfum og innleiða efnahagslega hvata til að þessi umskipti geti gengið sem hraðast yfir. Þetta hefur farið vel af stað; ívilnanir fyrir slík faratæki hafa verið festar í lög, mikil fjárfesting hefur farið af stað í hraðhleðslustöðvum um land allt með myndarlegri þátttöku einkaaðila og atvinnulífs. Áhrif þessa aðgerða eru þegar farin að birtast. Í janúar á þessu ári voru rafbílar yfir 20% allra nýskráðra bíla og í samanburði við önnur lönd erum við Íslendingar í öðru sæti allra þjóða heims yfir hlutfall nýskráðra nýorkubifreiða. Þetta er mjög ánægjuleg þróun, almenningur bregst hratt við og velur umhverfisvænni kosti. Við höfum boðað fjárfestingar í almenningssamgöngum hér á höfuðborgarsvæðinu þannig að það verði raunhæft að breyta ferðavenjum og skipta ekki eingöngu um orkugjafa heldur draga einnig úr umferð.

Við höfum á sama tíma stóraukið framlög til kolefnisbindingar og einkageirinn sömuleiðis. Miðað við stöðuna núna munum við binda tvöfalt meira kolefni 2030 en við gerðum árið 2018.

Næsta aðgerðaáætlun er í smíðum en á grundvelli hennar munum við vinna með ólíkum atvinnugreinum að markmiðum sem geta dregið úr losun frá þeim. Og aftur vil ég segja það sem ég hef áður sagt; við fögnum þeim jákvæðu viðbrögðum sem við höfum fengið frá atvinnulífinu um að taka fullan þátt í að ná þessum markmiðum. Samstarf stjórnvalda og atvinnulífsins í loftslagsbaráttunni hefur farið af stað með kraftmiklum hætti. Ég fagna sérstaklega stofnun Grænvangs, formlegum samstarfsvettvangi stjórnvalda og atvinnulífs og bind miklar vonir við að við getum nýtt okkur smæðina í samfélaginu og náð miklum árangri með samstarfinu á næstu árum.

Þá vil ég skýra frá því að við höfum ákveðið að greina tækifæri hins opinbera til að ráðast í útgáfu sjálfbærra og grænna skuldabréfa til að flýta fyrir því að efnahagslífið vinni með markmiðum okkar í loftslagsmálum. Þar hefur nú verið settur á laggirnar hópur nokkurra ráðuneyta og Seðlabankans sem ætlað er að greina tækifærin sem liggja hjá ríkinu og opinberum hlutafélögum til að ráðast í slíka útgáfu. Ég tel að slík útgáfa geti líka falið í sér tækifæri fyrir lífeyrissjóðina sem eru að horfa til lengri tíma í sínum fjárfestingum.

En er þá ekki bara allt í þessu fína og allt á góðri leið?

Já og nei. Við erum að gera margt gott og ekki skortir viljann. En áskorunin sem við stöndum frammi fyrir er svo stór að á köflum líður mér eins og ég hafi ákveðið að moka burt Esjunni með teskeið. Frekar lítilli teskeið meira að segja.

Og þetta fjall er erfitt viðfangs vegna þess hvernig við mennirnir erum. Ég hlustaði um daginn á Tryggva Þorgeirsson lækni og frumkvöðul á sviði nýsköpunar í heilbrigðismálum sem var að ræða um lýðheilsu og lífstíl. Hann benti þar á að 70-80 prósent af heilbrigðiskostnaði í vestrænum samfélögum sé vegna lífsstílstengdra langvinnra sjúkdóma en á sama tíma verjum við aðeins tæpum tveimur prósentum af heilbrigðisútgjöldum í forvarnir. Hann benti í þessu samhengi á að við mennirnir séum þannig samsett að meirihluti þeirra ákvarðana sem við tökum spretti úr því sem kallað hefur verið krókódílaheilinn, það er sá forni hluti heilans sem tekur ákvarðanir út frá tilfinningum og löngunum, en ekki endilega úr frá útreikningum og skynsemi. Og að einhverju leyti geti það skýrt að við séum sífellt að fást við afleiðingar ákvarðana okkar fremur en að taka nýjar ákvarðanir.

Ég hlustaði af athygli á Tryggva og svo tók krókódílaheilinn í mér yfir þannig að ég fór og keypti mér hamborgara og kók og stóran bland í poka. Og svo hugsaði ég að nú væri ég að hækka einhvern reikning inn í framtíðina en það var bara þegar ég var búin að borða.

En þá fór ég að hugsa. Er ekki ýmislegt svipað með hegðun okkar, hvort sem um er að ræða framtíðarheilbrigði okkar sjálfra eða framtíðarheilbrigði jarðarinnar? Við vitum að við þurfum að breyta lífstíl ef heilbrigðiskerfið á ekki að hrynja undan okkur; hreyfa okkur, borða öðruvísi, lifa öðruvísi. Við vitum líka að við þurfum að breyta lífstíl ef jörðin á ekki að hrynja undan okkur. Neyta minna og neyta öðruvísi, lifa betur. Við getum nefnilega litið á þetta sem tækifæri. Með því draga úr allri sóun, að framleiða ekki og neyta ekki þess sem við þurfum ekki, getum við dregið úr umhverfisáhrifum án þess að það þurfi að komi niður á lífsgæðum okkar. Ég þykist vita að eitt helsta verkefni margra hér inni á hverjum degi sé einmitt þetta að draga úr sóun – auka nýtingu, skilvirkni, hagræði og verðmætasköpun. Við þurfum að nálgast þessi mál með sama hætti.

Mér fannst merkileg líkindi með lýðheilsunni og loftslagsheilsunni. Og áskorunin til okkar allra er hvernig við getum tekið saman skynsamlegu skrefin þannig að við náum okkar markmiðum og gerum lífið um leið betra fyrir okkur öll. En auðvitað felur það í sér áskorun fyrir atvinnulífið að framleiða ekki bara meira heldur betra – og horfa fremur til lengri tíma en skemmri. Það er í raun sama áskorun og blasir við okkur sem einstaklingum en við þurfum að sýna að við getum horft fram á veginn og hugsað til lengri tíma. Við getum tekið skynsamlegu ákvarðanirnar og þá erum við að gera rétt ekki aðeins fyrir framtíðina heldur líka okkur sjálf.

Kæru gestir.

Það er krefjandi að hugsa til framtíðar á sama tíma og við eigum fullt í fangi með verkefni dagsins í dag. Eftir áföll síðasta árs er staðan sú atvinnuleysi mælist nú 3,3% og hagkerfið hefur kólnað. Stjórnvöld hafa brugðist skynsamlega við. Seðlabankinn hefur lækkað vexti en enn skortir upp á þeirri vaxtalækkun sé miðlað í gegnum fjármálafyrirtækin. Það þarf hins vegar að tryggja að atvinnulífið geti fjárfest og geti sótt sér lánsfjármagn og þar hafa stjórnvöld lagt sitt af mörkum með lækkun sérstaks bankaskatts sem ætti að bæta stöðu bankanna.

Ríkisstjórnin greiddi fyrir gerð lífskjarasamninganna með aðgerðum upp á 80 milljarða á gildistíma samninganna. Miklu skiptir að vel takist einnig til í þeim samningaviðræðum sem nú standa yfir milli verkalýðshreyfingarinnar og ríkisins. Stöðugleiki á vinnumarkaði er hagsmunamál okkar allra og það er stefna núverandi stjórnvalda að tryggja félagslegan stöðugleika samhliða hinum efnahagslega og auka þannig velsæld alls almennings. Skuldir hafa verið greiddar hratt niður á undanförnum árum og er skuldahlutfall hins opinbera áætlað 28% árið 2020 og hefur lækkað hratt úr þeim 65% sem það var árið 2009. Við höfum þegar ákveðið að byggja fleiri hjúkrunarrými, Hús íslenskunnar og nýjan Landspítala og stóraukið fjárfestingar í samgöngum. En við þurfum að gera betur.

Enn erum við rétt við sögulegt meðaltal í opinberri fjárfestingu og þörfin fyrir innspýtingu er brýn eins og hefur ítrekað komið fram í vetur þegar náttúruöflin hafa minnt illilega á sig. Við eigum að flýta fjárfestingum í raforkukerfinu og fjarskiptum og fjárfestingum í ofanflóðavörnum og tryggja þannig jöfn tækifæri og öryggi íbúa um land allt. Það er betri fjárfesting fyrir almenning að byggja upp innviði heldur en að geyma of mikið fé í bönkum – við þurfum að láta fjármagnið vinna fyrir fólkið í landinu. Þess vegna boðuðum við það í stjórnarsáttmála að dregið yrði úr eignarhaldi ríkisins á fjármálafyrirtækjum til að nýta í innviði í þágu almennings. Þið skuluð samt ekki örvænta, við stefnum áfram á að ríkið eigi að minnsta kosti einn banka.

Lágir vextir ásamt hinu lága skuldahlutfalli sem ég nefndi hér áðan gera það að verkum að hið opinbera hefur mikil tækifæri til að fjármagna opinberar fjárfestingar einnig með lántöku. Við munum kynna nýja áætlun um aukna opinbera fjárfestingu í lok þessa mánaðar sem gerð verður nánari grein fyrir í fjármálaáætlun næstu fimm ára. Nú er rétti tíminn, bæði vegna þess að þörfin er enn mikil og aðstæður í efnahagslífi kalla á innkomu hins opinbera.

En hinar áþreifanlegu fjárfestingar eru ekki einu fjárfestingarnar sem skipta máli. Til lengri tíma skiptir máli að efla þrótt samfélagsins til rannsókna, skapandi greina, nýsköpunar og þróunar. Stjórnvöld hafa kynnt framsækna nýsköpunarstefnu og nýjan nýsköpunarsjóð sem ber nafnið Kría. Endurgreiðslur til rannsókna og þróunar hafa verið hækkaðar og framlög á nemanda í háskólum landsins hafa hækkað. Það er brýnt að íslenskt atvinnu- og efnahagslíf hvíli á fjölbreyttum stoðum og þar mun nýsköpun og þekkingariðnaður skipta sköpum fyrir framtíð þessa samfélags. Ég tel að samhliða fjárfestingu í nýsköpun verðum við að efla grunnrannsóknir en úthlutunarhlutfall úr þeim sjóðum hefur farið lækkandi að undanförnu. Við eigum að líta á það sem heilbrigðismerki hve mikil ásókn er í rannsóknafé en það er óviðunandi hve mörg verðug verkefni hljóta ekki styrki á sviði mikilvægra grunnrannsókna. Að lokum vil ég nefna gamalt hugðarefni mitt, skapandi greinar. Vísbendingar eru um að sú fjárfesting sem við réðumst í árið 2012 þegar við forgangsröðuðum menntun og efldum sjóði á sviði lista og skapandi greina eftir hrun hafi m.a. skilað sér í auknum vexti í hugverkaiðnaði árin á eftir. Þetta eiga að vera forgangsmál í okkar atvinnustefnu til framtíðar.

Ágætu gestir.

Katrín Olga Jóhannesdóttir kveður nú sem formaður Viðskiptaráðs. Hún var kjörin formaður þess árið 2016, fyrst kvenna. Ég vil nota tækifærið og þakka henni fyrir einstaklega gott samstarf og hreinskilin og beinskeytt samskipti sem skipta svo sannarlega máli í sambúð stjórnvalda og viðskiptalífs. Hún hefur beitt sér fyrir ýmsum nýjungum, meðal annars þeim grænu áherslum sem við sjáum á Viðskiptaþingi í dag og hún hefur verið óþreytandi að ræða jafnréttismálin. Og ég sem ráðherra jafnréttismála ætla að ljúka minni ræðu í dag á að ræða jafnréttismál.

Í ár eru liðin hundrað ár frá því að konur fengu kosningarétt til Alþingis að fullu til jafns við karla. Eins og þekkt er þá gerðu lög um kosningarétt kvenna, sem gengu í gildi árið 1915, upphaflega ráð fyrir aðlögunartímabili til fimmtán ára til að tryggja að ekki fengju allar konur kosningarétt á einu bretti. Á bak við þetta bjó hugsanlega ótti við að nýfengin réttindi gætu ef til vill stigið konum til höfuðs; þær myndu allar kjósa eins og jafnvel sameinast um að kjósa bara konur. Hugsanlega hefði margt í sögu 20. aldar þróast öðruvísi ef konur hefðu gert einmitt það fyrir heilli öld.

Þessi ríkisstjórn hefur beitt sér fyrir ýmsum breytingum í átt til aukins jafnréttis í samfélaginu. Ný lög voru sett um þungunarrof sem undirstrikuðu sjálfsákvörðunarrétt kvenna yfir eigin líkama. Ég hef lagt fram tillögu um stórefldar forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni og nú nýlega voru kynntar tillögur hóps á mínum vegum um vernd kynferðislegrar friðhelgi, einkum í sambandi við stafrænt kynferðisofbeldi.  Lög um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna og lög um bann við allri mismunun fólks á vinnumarkaði tóku gildi (mismununartilskipanir Evrópu) 2018 og á síðasta ári voru sett lög um kynrænt sjálfræði sem færir Ísland aftur í fremstu röð ríkja hvað varðar réttindi hinsegin fólks. Með þessu má segja að jafnréttishugtakið hafi verið útvíkkað í íslenskri löggjöf, sem var löngu tímabært. Verkefni næstu ára er að útfæra nánar samspil þessara breyta og taka með skýrari hætti á margþættri mismunun. Við – stjórnvöld – tökum það alvarlega að fullu jafnrétti er enn ekki náð og þess vegna viljum við gera betur og róum að því öllum árum.

En atvinnulífið þarf að gera betur. Þið hér inni þurfið að gera betur.

Síðustu tölur um hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja eru fyrir árið 2018. Þá voru konur 33,5% stjórnarmanna í fyrirtækjum með 50 eða fleiri á launaskrá. Það er í fyrsta sinn sem það hlutfall mælist hærra en þriðjungur.

Frábært! Eða hvað. Konur eru ekki þriðjungur þjóðarinnar er það? Heldur helmingur. Og ekki nóg með það, heldur eru lög í landinu sem segja að þetta hlutfall eigi ekki að fara niður fyrir 40% og þau lög voru sett árið 2012. Allir stjórnendur fyrirtækja í Kauphöll Íslands eru karlar. Þetta er sérstaklega athyglivert í ljósi þess að það er margsannað að fjölbreytni í stjórnum og stjórnun fyrirtækja skilar sér í bættum rekstri og meiri hagnaði. Er þetta kannski eins og með kosningaréttinn – að ráðandi öfl vilja ekki gefa sín forréttindi of hratt eftir?

Atvinnulífið, þið öll sem eruð hér inni, vitið að konur og karlar standa jafnfætis. Hvernig í ósköpunum réttlætið þið þá mannauðssóun sem felst í því að konur eru einungis þriðjungur stjórnarmanna. Hversu mikil verðmæti fara í súginn vegna þess að við nýtum ekki þekkingu, sköpunargáfu og áræði kvenna til jafns við karla?

Nú hefur verið þingmannamál til meðferðar á Alþingi Íslendinga þar sem lagt er til að sett verði viðurlög við að brjóta kynjakvótalögin. Ég tel að Alþingi eigi að samþykkja þetta frumvarp – eða ef það þarf einhverja frekari skoðunar við – að fela ráðherra að flytja slíkt frumvarp. Og ég trúi ekki öðru en að atvinnulífið muni fagna því enda er það okkar vilji allra að fylgja lögum og ná jafnrétti. Ef löggjafinn þarf að skýra vilja sinn með því að setja slík viðurlög þá á hann að gera það. Auðvitað á það ekki að þurfa til. En ef það er það sem þarf þá segi ég: Gerum það þá, það er ekki hægt að bíða endalaust eftir að ná yfirlýstum markmiðum okkar um jafnrétti.

Kæru gestir.

Það er vel til fundið að ræða grænar áherslur á þessum fundi því framfarir í samfélaginu okkar hafa gjarnan eingöngu verið mældar út frá mælikvarðanum um verga þjóðarframleiðslu. En hann mælir ekki allt. Verg þjóðarframleiðsla er lítils virði ef hún byggist á ofnýtingu auðlinda eða mengun. Hún er lítils virði ef fólkinu líður illa og einungis sumir en ekki allir fá tækifæri til að finna kröftum sínum viðnám og leita hamingjunnar. Það er þetta mikilvægi jafnvægi manns og náttúru sem framtíðin okkar hvílir á og er ástæða þess að ríkisstjórnin réðst í gerð sérstakra hagsældarmælikvarða fyrir Ísland ásamt því að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi um þróun velsældarhagkerfa m.a. með Nýja-Sjálandi og Skotlandi. Þessi nálgun getur gefið okkur miklu betri og heildrænni mynd af því hvernig íslensku samfélagi vegnar. Viðskiptaþing eftir 20 ár mun vonandi ekki verða krísufundur þar sem hóstandi karlkyns viðskiptajöfrar ræða það hvað í ósköpunum þeir eigi til bragðs að taka þegar allt er komið í óefni heldur skulum við vona að það muni snúast um öll þau frábæru tækifæri sem við munum eiga ef við höfum vit og kjark til að taka réttu ákvarðanirnar núna.

Góðir gestir, ég þakka fyrir mig.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum