Hoppa yfir valmynd
24. febrúar 2020 Félagsmálaráðuneytið

Félags- og barnamálaráðherra styrkir innlend verkefni Barnaheilla um 9 milljónir króna

Á myndinni eru Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, Erna Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla, og Sigríður Björnsdóttir, verkefnastjóri Verndara barna.  - mynd

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, heimsótti í dag Barnaheill - Save the children á Íslandi. Starfsfólk Barnaheilla tóku á móti ráðherra í nýjum húsakynnum sínum og kynntu fyrir honum starfsemi og helstu verkefni auk þess að funda með ráðherra. Í heimsókninni afhenti Ásmundur Einar Barnaheillum styrk að fjárhæð 9 milljónir króna sem renna á til innlendra verkefna Barnaheilla, með sérstakri áherslu á verkefnin Verndarar barna og Vinátta. Harpa Rut Hilmarsdóttir, formaður stjórnar Barnaheilla, veitti styrknum viðtöku.

Í byrjun mars 2019 tóku stjórnir Barnaheilla og Verndarar barna – Blátt áfram þá ákvörðun að sameina krafta sína undir nafni Barnaheilla. Verkefni sem þegar heyrðu undir önnur hvor samtökin heyra nú undir Barnaheill sem sameinuð samtök. Tilgangur sameiningarinnar var að samnýta krafta og þekkingu beggja samtaka með það að sameiginlegu markmiði að berjast gegn ofbeldi gegn börnum. Verkefnið Verndarar barna felst að stærstum hluta í vitundarvakningu, fræðslu og forvörnum á því sviði.

Þá hefur eitt stærsta verkefni Barnaheilla á síðari árum verið verkefnið Vinátta. Um er að ræða kennsluefni fyrir leikskóla og yngsta stig grunnskóla sem hefur það að markmiði að efla félags- og tilfinningaþroska barna í þeim tilgangi að fyrirbyggja einelti. Verkefninu var ýtt úr vöru árið 2014, þá aðeins fyrir leikskólastig, en árið 2017 hófst tilraunaverkefni með efni fyrir yngsta stig grunnskóla. Vinátta er verkefni sem á rætur að rekja til danska efnisins Fri for mobberi, en systursamtök Barnaheilla í Danmörku, Red barnet, ásamt Mary fonden, gefa efnið út þar í landi. 

„Það var afar ánægjulegt að heimsækja Barnaheill og fá góðar kynningar á því fjölbreytta starfi sem þar fer fram. Metnaður og vilji samtakanna til góðra verka er áþreifanlegur og einkennir starfið allt. Verkefni Barnaheilla ríma afar vel við þær áherslur sem ég hef, sem ráðherra, sett í málefnum barna og mér þótti vænt um að finna stuðning starfsmanna í garð þeirrar vinnu sem stendur nú yfir í málefnum barna í ráðuneytinu.” Sagði Ásmundur Einar.

  • Félags- og barnamálaráðherra styrkir innlend verkefni Barnaheilla um 9 milljónir króna
  • Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, Erna Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla, og Sigríður Björnsdóttir, verkefnastjóri Verndara barna.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira