Hoppa yfir valmynd
25. febrúar 2020 Utanríkisráðuneytið

Málefni hinsegin fólks og gagnrýni á Venesúela efst á baugi í ræðu utanríkisráðherra

Utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra í ræðustól mannréttindaráðsins í dag  - myndUtanríkisráðuneytið

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, gagnrýndi stjórnvöld í Venesúela harðlega í ávarpi sínu í mannréttindarráði Sameinuðu þjóðanna í dag. Þá lagði hann sérstaka áherslu á réttindi hinsegin fólks og að ekki væri hægt að una því að samkynhneigð sé víða skilgreind sem glæpur. Guðlaugur Þór átti einnig fund með Michelle Bachelet, mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna.

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, ávarpaði mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna í dag en 43 fundalota ráðsins stendur nú yfir. Þetta er í fjórða sinn sem Guðlaugur Þór ávarpar mannréttindaráðið en hann var fyrstur íslenskra utanríkisráðherra til að sækja ráðherraviku mannréttindaráðsins árið 2017. 

Í ávarpinu lagði utanríkisráðherra enn sem fyrr áherslu á að þau ríki sem kjörin eru til setu í ráðinu gangi á undan með góðu fordæmi. Gagnrýndi hann sérstaklega kjör Venesúela í ráðið enda væru mannréttindi þverbrotin í landinu.  „Mannréttindabrot ríkisstjórnar Nicolasar Maduro hafa valdið mikilli neyð sem hefur rekið milljónir á vergang,“ sagði Guðlaugur Þór. Þá lagði hann áherslu á að það sama yrði yfir öll ríki að ganga í ráðinu en hingað til hefur sérstakur dagskrárliður verið tileinkaður málefnum Ísraels á hverjum einasta fundi ráðsins. Ekkert annað ríki eða landsvæði heyrir undir sérstakan dagskrárlið af þessu tagi.

Málefni hinsegin fólks voru ráðherra einnig ofarlega í huga og þær ofsóknir sem það sætti víða um heim. „Sú staðreynd að samkynhneigð sé skilgreind sem glæpur í um sjötíu aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna er óásættanleg og við hljótum að vera sammála um að þeim lögum skuli breyta,“ sagði hann í ræðunni.

Guðlaugur Þór átti einnig fund með Michelle Bachelet, mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna. Þau ræddu meðal annars skýrslu hennar um stöðu mannréttinda á Filippseyjum sem kemur út í sumar í samræmi við ályktun Íslands og fleiri ríkja þar að lútandi. Þá tók Guðlaugur Þór einnig þátt í fundi Hollands og Maldíva um mikilvægi virkrar þátttöku smærri ríkja í starfi Sameinuðu þjóðanna.

Ræðu utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra í mannréttindaráðinu má lesa í heild sinni á Stjórnarráðsvefnum. 

  • Michelle Bachelet, mannréttindafulltrúi SÞ, og Guðlaugur Þór Þórðarson
  • Frá fundi um mikilvægi virkrar þátttöku smærri ríkja í starfi Sameinuðu þjóðanna

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira