Hoppa yfir valmynd
27. febrúar 2020 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Samningur við Lýðskólann á Flateyri

Ingibjörg Guðmundsdóttir skólastjóri Lýðskólans á Flateyri og Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.  - mynd
Lýðskólar leggja áherslu á að veita víðtæka almenna menntun þar sem nemandinn er í fyrirrúmi. Slíkt nám miðar að því að gefa nemendum tækifæri til að þroskast á eigin forsendum, rækta hæfileika sína og styrkleika og auka sinn skilning á sögu, menningu, virðingu fyrir lífsgildum annarra og innviðum lýðræðislegs samfélags.

Með tilkomu nýrra laga um lýðskóla var fest í sessi fagleg umgjörð um starfsemi slíkra skóla hér á landi en fram að því hafði engin löggjöf gilt um þá. Reglugerð um lýðskóla er enn í mótun og því var í gær gengið frá tímabundnum samningi við Lýðskólann á Flateyri um stuðning ríkisins við starfsemi hans næstu þrjár annir. Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Ingibjörg Guðmundsdóttir skólastjóri Lýðskólans á Flateyri skrifuðu undir samninginn.

„Menntun er lykillinn að framtíðinni. Ljóst er að nemendur hér við lýðskólann eru hamingjusamir, þeir segja að umhyggja og hlýja einkenni Flateyri og því líði þeim vel. Það er einstakt að hitta nemendur sem njóta sín og finna sig í námi. Fjölbreytni er menntakerfinu afar mikilvæg, nemendur þurfa að hafa val um sitt nám. Það er því vel að námsframboð hér á landi hefur aukist mjög, ekki síst á framhaldsskólastiginu og að fleiri nemendur séu opnir fyrir námskostum t.d. á sviði verk- og tæknigreina,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Samningurinn kveður á um 70 milljóna kr. stuðning mennta- og menningarmálaráðuneytisins við Lýðskólann á Flateyri sem mun bjóða upp á nám sem uppfyllir kröfur nýrra laga um lýðskóla og sækja um viðurkenningu sem slíkur skóli á samningstímanum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum