Hoppa yfir valmynd
28. febrúar 2020 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Snjóflóðavörnum í þéttbýli ljúki á næstu 10 árum

Varnargarðar Siglufirði - mynd

Uppbyggingu ofanflóðavarna verður flýtt og á þeim að verða lokið árið 2030 skv. tillögum átakshóps ríkisstjórnarinnar um úrbætur í innviðum sem ríkisstjórnin kynnti í morgun. Þetta hefur í för með sér að uppbyggingu ofanflóðamannvirkja á hættusvæðum í byggð verður lokið um 25 árum fyrr en í stefndi að óbreyttu.

Hópurinn var skipaður í kjölfar fárviðrisins sem gekk yfir landið í desember sl. sem hafði víðtæk áhrif á ýmsa innviði samfélagsins, s.s. orku- og fjarskiptakerfi. Þá urðu snjóflóð sem féllu á Flateyri og í Súgandafirði í óviðri þann 14. janúar sl. til þess að ákveðið var að taka framvindu framkvæmda við ofanflóðavarnir einnig til endurskoðunar.

„Það er forgangsmál að tryggja öryggi fólks, ekki síst þeirra sem reglulega upplifa hættuástand af völdum mögulegra snjóflóða heima hjá sér. Ég er auðvitað mjög ánægður með þessa niðurstöðu,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.

Samkvæmt tillögum átakshópsins verður framkvæmdum vegna ofanflóðavarna og flutnings- og dreifikerfi raforku flýtt á næstu árum fyrir 27 milljarða króna, þar af er aukning til ofanflóðavarna um 15 milljarða. Aðgerðaáætlun átakshópsins má finna í heild sinni á vefsíðunni www.innvidir2020.is.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum