Hoppa yfir valmynd
3. mars 2020 Forsætisráðuneytið, Innviðaráðuneytið, Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fimmtán aðgerðir til að treysta búsetu og atvinnulíf á Flateyri

Flateyri - myndChristian Bickel

Forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skipuðu þann 24. janúar sl. starfshóp til að móta tillögur um aðgerðir til að treysta atvinnulíf og búsetu á Flateyri við Önundarfjörð í kjölfar snjóflóðanna þann 14. janúar sl. Verkefni starfshópsins var að kanna leiðir til að byggja upp traust íbúa Flateyrar á samfélagslegum innviðum og gera tillögur um aðgerðir sem treyst geta stoðir byggðarinnar.

Starfshópurinn setur fram tillögur um 15 aðgerðir sem allar geta haft jákvæða þýðingu fyrir framtíðarþróun samfélagsins og eftirmála snjóflóðanna. Skipta má aðgerðunum upp eftir því hvort þær fela í sér leiðir til að auka öryggi íbúanna eða stuðli að styrkingu atvinnulífs og jákvæðri byggðaþróun. Langmikilvægasta aðgerðin er sú að endurmeta snjóflóðavarnir fyrir ofan byggðina og vinna framkvæmdaráætlun þar að lútandi, sem yrði sett í forgang. Samhliða er mikilvægt að skoða möguleika á því að verja einnig hafnarsvæðið sem er samtvinnað byggðinni og erfitt að aðskilja, sem og að auka öryggi vegfarenda um Flateyrarveg um Hvilftarströnd.

Þá fela fimm aðgerðir í sér nýjar skuldbindingar fyrir ríkissjóð, þær kostnaðarsömustu snúa að nýsköpunar- og þróunarverkefni fyrir Flateyri, uppbyggingu heilsugæslusels og kaupum á björgunarbát. Gert er ráð fyrir því að kostnaði vegna annarra aðgerða verði mætt með þeim fjárheimildum sem ábyrgðaraðilar hafa yfir að ráða á hverjum tíma.

Aðgerðir sem fela í sér nýjar skuldbindingar fyrir ríkissjóð:

  • Skipulag og viðbúnaður heilbrigðisþjónustu á Flateyri – heilsugæslusel
  • Nýsköpunar- og þróunarverkefni fyrir Flateyri
  • Lýðskólinn
  • Beinn kostnaður vegna flóðanna
  • Björgunarbátur

Mikilvægar aðgerðir til að auka öryggi íbúa:

  • Snjóflóðavarnir fyrir byggð og hafnarsvæði
  • Snjóflóðavarnir fyrir Flateyrarveg
  • Endurskoðun á skipulagi og viðbragði almannavarna og lögreglu
  • Rafmagnsöryggi

Atvinnu- og byggðaaðgerðir:

  • Vinnumarkaðsaðgerðir
  • Byggðaþróunarverkefni í sjávarútvegi á Flateyri
  • Fiskeldi í Önundarfirði
  • Fjármögnun uppbyggingar og viðhalds atvinnuhúsnæðis
  • Íbúðarhúsnæði
  • Almenningssamgöngur

Starfshópinn skipuðu Teitur Björn Einarsson lögmaður, fulltrúi fjármála- og efnahagsráðherra, formaður, Lísa Kristjánsdóttir aðstoðarmaður forsætisráðherra, Hermann Sæmundsson skrifstofustjóri í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, Þórdís Sif Sigurðardóttir bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar og Steinunn Guðný Einarsdóttir varabæjarfulltrúi í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar.

Greinagerð og tillögur aðgerðarhóps í kjölfar snjóflóðanna á Flateyri

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin
15. Líf á landi
9. Nýsköpun og uppbygging

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum