Hoppa yfir valmynd
6. mars 2020 Umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið, Dómsmálaráðuneytið

Dregið verði úr flugeldamengun

Skýrsla starfshóps dómsmálaráðherra, heilbrigðisráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra um hvernig draga megi úr neikvæðum áhrifum mengunar frá flugeldum er komin út.

Í tillögum starfshópsins kemur fram að sú mengun sem oft verður um áramót af völdum skotelda hafi óæskileg áhrif á heilsu margra einstaklinga, sérstaklega þeirra sem eru með undirliggjandi heilsufarsvandamál.

Starfshópurinn lagði fram sjö tillögur að úrbótum, en þær lúta að eftirfarandi þáttum:
• skammtímaaðgerðum í áætlunum heilbrigðisnefnda,
• starfsleyfisskyldu og eftirliti með skoteldasýningum,
• þrengri tímamörkum um almenna notkun skotelda,
• fækkun söludaga,
• auknu eftirliti með skoteldum,
• viðurlögum og stjórnvaldssektum og
• skipun starfshóps til að fjalla um fjármögnun björgunarsveita

Að auki lögðu fulltrúar heilbrigðisráðuneytis og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins í starfshópnum til að almennri notkun skotelda í 3. flokki (þ.e. stærri flugeldar og skotkökur, til notkunar á stórum opnum svæðum) yrði hætt 2030 og að eingöngu yrði heimilt að skjóta upp skoteldum á tilteknum afmörkuðum svæðum. Fulltrúi dómsmálaráðuneytisins lagði til úrbætur er varða ítarlegri mælingar á mengun, fjölgun mælistöðva, greiningu á uppruna mengunar, rannsóknir og bann við innflutningi á skoteldum á priki.

Ráðherrarnir eru einhuga um mikilvægi þess að farið sé í raunhæfar aðgerðir til að bæta lýðheilsu almennings vegna skotelda og um leið að tryggja öfluga starfsemi björgunarsveita. Jafnframt að hrundið verði í framkvæmd þeim aðgerðum sem samstaða var um í starfshópnum, en sú vinna er þegar hafin í viðkomandi ráðuneytum.

Varðandi tillögu fulltrúa heilbrigðis- og umhverfis- og auðlindaráðuneytis, sem snýr að mögulegri takmörkun á notkun skotelda, verður hún skoðuð í ljósi reynslunnar af takmörkunum á lengd sölutíma og skottíma sem og niðurstöðu hóps um fjármögnun björgunarsveita.

Nánar er gerð grein fyrir einstaka tillögum í meðfylgjandi skýrslu.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira