Hoppa yfir valmynd
7. mars 2020 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Áframhaldandi samstarf Norðurlanda og Eystrasaltsríkja um stafræna þróun

Ráðherrar Norðurlanda og Eystrasaltsríkja ræddu stafræn málefni á fundinum í Kaupmannahöfn í gær. - myndNorden.org/André Jamholt

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, tók í gær þátt í fundi norrænu ráðherranefndarinnar um stafræn málefni, sem haldinn var í Kaupmannahöfn.

Fundinn sóttu ráðherrar og sendinefndir Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna. Nefndin nýtur nokkurrar sérstöðu í norrænu samhengi, þar sem Eystrasaltsríkin þrjú, Lettland, Eistland og Litháen eiga einnig aðild að henni, en markmið með samstarfinu er að koma á sameiginlegu, hindrunarlausu og öflugu stafrænu svæði.

Á fundinum lagði Danmörk sem nú fer með formennsku í nefndinni fram drög að áframhaldandi samstarfi ríkjanna um stafræna þróun og tækniinnviði þjóðanna til næstu ára auk þess sem framkvæmdastjóri yfir „The Digital Europe Programme“, Margrethe Vestager kynnti nýja áætlun ESB „Europe Fit for the Digital Age“.

Þá var rætt á fundinum um forgang þeirra ferla sem mikilvægast er að innleiða þvert á landamæri ríkjanna í stafrænum lausnum. Það er í samræmi við ákvörðun ráðherranefndarinnar frá því í nóvember sl. um að greiða fyrir hindrunarlausum og gagnkvæmum aðgangi að stafrænum lausnum og þjónustu yfir landamæri.

„Mikil tækifæri liggja í aukinni samvinnu Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna þegar kemur að stafrænum lausnum og þjónustu, Það er því fagnaðarefni að nú standi til að framlengja og auka samstarfið enn frekar á næstu árum.“ sagði Bjarni Benediktsson á fundinum.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum