Hoppa yfir valmynd
10. mars 2020 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Kennsla heldur áfram

Yfirlýst neyðarstig almannavarna hefur bein og óbein áhrif á skólastarf í landinu. Skólastjórnendur og kennarar hafa sýnt mikla yfirvegun við þessar óvenjulegu aðstæður og horft til fyrirmæla í nýsamþykktri landsáætlun sóttvarnarlæknis og ríkislögreglustjóra. Þar segir:

• Skólar munu halda uppi starfsemi eins lengi og unnt er.
• Markmið er að starfsmenn skóla haldi áfram störfum þó nemendur eða starfsfólk sé sent heim vegna sóttvarnaráðstafana.
• Skipuleggja [skal] hlutverk kennara í fjarkennslu og heimanámi.
• Skrá [skal] sérstaklega fjarvistir nemenda og starfsmanna vegna viðkomandi veikinda.
• Hugað verði að því að nemendum í brotthvarfshættu bjóðist stuðningur námsráðgjafa þar sem því verður við komið.


Að sama skapi hafa nemendur og foreldrar almennt sýnt ábyrgð og lagt sitt af mörkum við að hefta útbreiðslu veirunnar sem orsakar Covid-19. Fyrir það ber að þakka.

Rík áhersla er lögð á upplýsingamiðlun skólastjórnenda til nemenda og forráðamanna. Meðal annars varðandi upplýsingar frá almannavarnardeild ríkislögreglustjóra og sóttvarnarlækni og upplýsingamiðlun ef upp kemur smit í starfsmanna- eða nemendahópi.

Rétt er að ítreka að skólastarf er í fullum gangi. Komi til samkomubanns á síðari stigum munu skólar vinna eftir uppfærðum áætlunum, enda er mikilvægt að skólastarf haldi áfram þótt aðstæður breytist. Almennt er miðað við að kennarar mæti til vinnu í samkomubanni og sinni sínum störfum með fjarkennslu þar sem henni verður komið við, gerð heimaverkefna o.s.frv. Vinnulag og samskipti á vinnustað skulu vera í samræmi við leiðbeiningar sóttvarnarlæknis og almannavarna og skólar upplýsa nemendur og forráðamenn um skipulag námsins á meðan samkomubanni stendur. 

Hvatt er til þess að skólar hugi vel að andlegri líðan nemenda og nýti fagþekkingu starfs- og námsráðgjafa, sálfræðinga og annarra eftir atvikum. Þá er keppt að því að veita skjót svör við spurningum sem kunna að vakna hjá nemendum, foreldrum og forráðamönnum.

Ítarlegri upplýsingar verða veittar eftir því sem aðstæður breytast, en að sinni eru ekki fyrirhugaðar breytingar á skólahaldi, sem halda skal úti eins lengi og hægt er samkvæmt landsáætlun. Mennta- og menningarmálaráðuneytið telur skólakerfið vel í stakk búið að takast á við núverandi aðstæður og reiðubúið að takast á við fleiri áskoranir, ef til þeirra kemur.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum