Hoppa yfir valmynd
16. mars 2020 Innviðaráðuneytið

Breyting á reglugerð um framkvæmdaleyfi í samráðsgátt

  - myndJohannes Jansson/norden.org

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur kynnt í samráðsgátt stjórnvalda drög að breytingu á reglugerð um framkvæmdaleyfi.

Breytingin er liður í ráðstöfunum til að lækka kostnað við uppbyggingu á háhraða rafrænum fjarskiptanetum en þegar hafa verið sett ný lög þar að lútandi, þ.e lög um ráðstafanir til hagkvæmrar uppbyggingar háhraðafjarskiptaneta, sem er á ábyrgðarsviði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis. 

Reglugerð um framkvæmdaleyfi, tekur m.a. til framkvæmdaleyfa í tengslum við uppbyggingu fjarskiptainnviða fyrir dreifi- og flutningskerfi fjarskipta. Í gildandi reglugerð er kveðið á um að tilkynna skuli umsækjanda um niðurstöðu umsóknar hans um framkvæmdaleyfi eins fljótt og unnt er. Með breytingunni nú verður leyfisveitanda, þ.e. viðkomandi sveitarfélagi, gert skylt að afgreiða umsókn um framkvæmdaleyfi vegna uppbyggingar slíkra fjarskiptainnviða innan fjögurra mánaða frá því að fullnægjandi umsókn berst.

Breyting er til að innleiða tilskipun Evrópusambandsins um ráðstafanir til að lækka kostnað við uppbyggingu á háhraða rafrænum fjarskiptanetum. Tilskipuninni er ætlað að bæta aðgengi almennings að hraðvirkri nettengingu. Í því samhengi er m.a. horft til þess að kveða á um lágmarks málsmeðferðartíma hjá skipulags- og byggingaryfirvöldum og einfalda stjórnsýsluna í tengslum við uppbyggingu fjarskiptainnviða fyrir dreifi- og flutningskerfi fjarskipta.

Umsögnum um drögin að reglugerðinni skal skilað í samráðsgátt stjórnvalda og er frestur til þess til 31. mars næstkomandi.

Drög að breytingu á reglugerð um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012 í samráðsgátt.

 


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum