Hoppa yfir valmynd
20. mars 2020 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Lín hækkar tekjuviðmið, eykur ívilnanir og framlengir umsóknarfrest vegna COVID-19

Stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna hefur, í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðuneyti, ákveðið frekari aðgerðir til að létta á áhyggjum námsmanna og greiðenda af námslánum vegna hugsanlegra aðstæðna sem komið geta upp á meðan á COVID-19 faraldrinum stendur eða í kjölfar hans.

Ívilnanir fyrir greiðendur

Í nýjum úthlutunarreglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna verður kveðið á um hækkun tekjuviðmiðs fyrir lánþega með börn á framfæri. Sú hækkun nemur um 430.000 kr. á hvert barn. Núgildandi tekjuviðmið er 4.470.000 kr. fyrir einstaklinga og kr. 8.940.000 kr. fyrir sambúðarfólk.

Ákveðið hefur verið að seinka innheimtuaðgerðum vegna tímabundinna vanskila á greiðslu námslána þannig að greiðendur fá nú tækifæri til að greiða gjalddagann næsta mánuð á eftir, án dráttarvaxta.

Jafnframt hefur verið ákveðin heimild fyrir sjóðinn að rýmka tímabundið heimildir hans við mat á umsóknum um undanþágu á afborgun vegna fjárhagsörðugleika greiðenda vegna tekjumissis.

Ívilnanir fyrir námsmenn

Stjórn sjóðsins hefur þegar samþykkt heimild til að taka til greina annars konar staðfestingu skóla á ástundun nemenda en vottorðum fyrir loknar einingar. Þetta var gert til að bregðast við aðstæðum nemenda sem mögulega geta ekki sinnt námi vegna röskunar á skólastarfi vegna COVID-19.

Jafnframt hefur stjórn sjóðsins samþykkt að lengja umsóknarfrest námslána, sem nú er 15. apríl fyrir vorönn til 1. maí.

„Þetta er mikilvægt skref hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Ég bind miklar vonir við þessar aðgerðir enda er alveg ljóst að fjölmargir í íslensku samfélagi hafa nú fjárhagsáhyggjur. Þetta er liður í aðstoð á þessum óvissutímum. Þetta er til þess að aðstoða námsmenn og greiðendur námslána,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Nánari upplýsingar má fá hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna, lin.is.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira