Hoppa yfir valmynd
24. mars 2020 Matvælaráðuneytið

Horfur í landbúnaði og sjávarútvegi ræddar í ríkisstjórn

Áhrif kórónaveirunnar eru víðtæk í íslensku samfélagi og gerði Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, grein fyrir stöðunni eins og hún horfir við íslenskum landbúnaði og sjávarútvegi á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun en ráðuneytið hefur undanfarna daga og vikur fylgst grannt með þróun mála.

 

Eftirspurn dregist saman

Kristján Þór greindi ríkisstjórn frá því að eftirspurn eftir ferskum fiski í Evrópu hefur dregist mjög saman vegna stöðunnar og hafa íslensk sjávarútvegsfyrirtæki fundið fyrir samdrætti í eftirspurn allra tegunda. Augljóst er að þessar umfangsmiklu breytingar á erlendum mörkuðum munu hafa töluvert neikvæð áhrif á íslenskan sjávarútveg og afleidda starfsemi. Unnið er að því að færa framleiðslu úr fersku hráefni í aðra vinnslu. Sum fyrirtæki ætla að reyna að halda sínu striki eða breyta sókn sinni í ákveðnar tegundir, en önnur fyrirtæki hyggjast draga úr sjósókn og framleiðslu fyrst um sinn, í samræmi við samdrátt í eftirspurn markaðarins.

 

Óvissa með sláturhús og sölu á afurðum

Kristján Þór greindi einnig frá því að talsverð óvissa er um sölu á afurðum á næstu mánuðum m.t.t fækkunar ferðamanna og mikið hefur verið um afbókanir hjá ferðaþjónustubændum langt fram eftir árinu.  Íslenskir fóðurframleiðendur eiga birgðir til nokkurra mánaða og stendur yfir vinna til að auka þær enn frekar. Hið sama er uppi á teningnum varðandi áburð. Bændasamtök Íslands hafa auglýst eftir viljugu fólki til þess að sinna afleysingarþjónustu fyrir bændur. Áhersla er lögð á mögulegar afleysingar fyrir einyrkja og minni bú.

 

Eðli málsins samkvæmt breytist staðan hratt og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið mun fylgjast áfram náið með þróun mála og grípa til þeirra aðgerða sem nauðsynlegar eru til að lágmarka efnahagslega neikvæð áhrif á íslenskan landbúnað og sjávarútveg til skemmri og lengri tíma.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

15. Líf á landi
14. Líf í vatni

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum