Hoppa yfir valmynd
29. mars 2020 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

133,6 milljónir í styrki til fjarvinnslustöðva

Frá Ísafirði Mynd/Hugi Ólafsson - mynd

Frá árinu 2018 hefur samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra veitt átta verkefnastyrki vegna fjarvinnslustöðva, á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2018-2024. Markmiðið með framlögum er annars vegar að koma opinberum gögnum á stafrænt form og hins vegar að fjölga atvinnutækifærum á landsbyggðinni.

Alls hefur verið úthlutað 133,6 m.kr. fyrir árin 2018-2020 til sjö verkefna (eitt þeirra fékk úthlutað tvisvar). Tvisvar var auglýst eftir umsóknum um styrki og bárust alls 34 umsóknir að fjárhæð um 328 m.kr. fyrir tímabilið 2018-2020.

Eftirfarandi sjö verkefni hafa hlotið styrk:

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Skagaströnd hlaut tvívegis styrk vegna verkefnisins Gagnagrunnur sáttanefndabóka, samtals að fjárhæð 40,6 m.kr. Verkefnið felst í því að mynda svokallaðar sáttanefndabækur af öllu landinu frá tímabilinu 1798-1936 og koma þeim á stafrænt og aðgengilegt form á vefnum ásamt efnisskráningu og gerð veflægs og leitarbærs gagnagrunns um innihald þeirra. Sagnfræðingur var ráðinn sem verkefnisstjóri og flutti á Skagaströnd. Mynda þarf bækurnar og efnisskrá innihaldið og afla upplýsinga um fjölda varðveittra sáttabóka, varðveislustaði og ásigkomulag o.fl. Verkefnið reyndist umfangsmeira en gert var ráð fyrir í upphafi, m.a. eru sáttabækur mun fleiri en talið var.

Sýslumaðurinn á Vestfjörðum fékk 18 m.kr. styrk til verkefnisins Skönnun og skráning þinglýstra skjala og hófst það á árinu 2018. Safna á eldri þinglýsingarskjölum sem enn eru ófrágengin hjá öðrum sýslumannsembættum, skanna þau og koma á rafrænt form. Ráðinn var starfsmaður í 75% starfshlutfall og starfshlutfall annars starfsmanns á Hólmavík aukið, þannig að í heild var um eitt stöðugildi að ræða. Keypt voru tæki og búnaður til verksins og starfsaðstaðan sett upp á skrifstofu embættisins á Hólmavík. Skönnuð hafa verið skjöl frá embætti sýslumannsins á Norðurlandi eystra, á Húsavík, Akureyri og Siglufirði og frá Patreksfirði. Þegar hefur verið farið yfir tugi þúsunda skjala.

Verkefni Minjastofnunar, Fjarvinnsla á Djúpavogi. Skráning minningarmarka, hlaut 21 m.kr. styrk. Ráðinn var starfsmaður til þessa verkefnis og var það komið vel á veg. Starfsmaðurinn hvarf svo til annarra starfa og hefur verkefnið því frestast nokkuð, en því átti upphaflega að ljúka í árslok 2019.

Verkefni Háskóla Íslands, Þjóðfræðistofan á Ströndum. Söfnun upplýsinga og skráning menningararfs, fékk styrk að fjárhæð 18 m.kr. Ráðinn var starfsmaður til að sinna verkefninu og er búið að safna talsverðu af gögnum, en úrvinnslu var ekki lokið. Nokkur seinkun hefur orðið á verkefninu, en stefnt er að kynningu á vinnu og helstu niðurstöðum á árinu 2020.

Þjóðskrá Íslands fékk 18 m.kr. styrk til verkefnisins Skráning þinglýstra gagna í landeignaskrá. Færa á inn afmörkun landeigna byggt á vísun í þinglýstar heimildir með áherslu á landeignir í dreifbýli. Verkið verður unnið í Hrísey og Grímsey og nemur tveimur ársverkum. Verkefnið auðveldar aðgengi að upplýsingum um eignarhald og umfang landeigna og fjölga störfum í viðkvæmum byggarlögum. Verkefnið er nýhafið og búið að auglýsa eftir starfsmanni.

Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra fékk 6 m.kr. styrk til verkefnisins Rafræn skönnun fjölskyldumála á landsvísu. Markmið þess er að stuðla að heildstæðri mála- og skjalaskrá í flóknum og vandmeðförnum málaflokki, svo tryggja megi rafræna vistun og aðgengi að mikilvægum grundvallarskjölum til framtíðar á landsvísu. Ljóst er að verkefnið er mun tímafrekara en svo en fjármögnun til lengri tíma er enn ótrygg. Nýverið tók starfsmaður sýslumanns til starfa á Þórshöfn til að sinna þessu verkefni. Samhliða öðlast íbúar Langanesbyggðar og nærsveitarmenn aðgang að almennri þjónustu sýslumanns, svo sem vegna tilkynninga, umsókna og skjala af ýmsu tagi. Starfsmaðurinn hefur starfsaðstöðu á skrifstofu Langnesbyggðar á Þórshöfn í samræmi við samstarfssamning sýslumannsembættisins og sveitarfélagsins.

Með vísan í samþykkt ríkisstjórnarinnar frá því í ágúst 2019 fær Sýslumannsembættið í Vestmannaeyjum 30 m.kr. styrk vegna verkefnisins Rafræn birting reglugerða sem felst í því að uppfæra allar gildandi reglugerðir og birta með breytingum á www.reglugerd.is.

Þriggja manna valnefnd mat umsóknir og gerði tillögur til ráðherra. Við mat á umsóknum voru skoðaðir þættir eins og íbúaþróun, samsetningu atvinnulífs og atvinnustig og þróun á starfsmannafjölda viðkomandi stofnunar undanfarin ár, auk þess sem valnefndin studdist við níu matsþætti til grundvallar niðurstöðu. Byggðastofnun annast umsýslu verkefnastyrkjanna. Í valnefndinni sitja Elín Gróa Karlsdóttir, verkefnisstjóri hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Magnús Karel Hannesson, fv. starfsmaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og Stefanía Traustadóttir, sérfræðingur í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, sem er formaður. Með valnefnd starfa Jóhanna Sigurjónsdóttir, sérfræðingur í ráðuneytinu og Sigríður K. Þorgrímsdóttir sérfræðingur hjá Byggðastofnun. Skipun valnefndar og mat umsókna eru í samræmi við reglur um úthlutun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra á framlögum sem veitt eru á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2018-2024.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira