Hoppa yfir valmynd
31. mars 2020 Utanríkisráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Ísland aðili að samningi um sameiginleg innkaup Evrópuríkja á aðföngum fyrir heilbrigðisþjónustuna

Stofugangur á smitsjúkdómadeild A7 á Landspítalanum í Fossvogi  - myndLandspítalinn/Þorkell Þorkelsson

Íslensk stjórnvöld geta framvegis tekið þátt í sameiginlegum innkaupum Evrópuríkja á læknisfræðilegum viðbúnaðarvörum, eftir að Ísland undirritaði í gær sérstakan samning þar að lútandi. Í samningnum felst að aðildarríki samningsins geta staðið saman að innkaupum á lækningabúnaði, lyfjum, vöru og þjónustu sem nauðsynleg eru hverju sinni og geta þannig fengið hagstæðari kjör og skjótari afgreiðslu. Nær öll aðildarríki Evrópusambandsins, auk Bretlands standa að þessum samningi og Noregur gerðist aðili í síðustu viku.

Samstillt átak og hröð afgreiðsla 

„Fyrir tæpri viku óskaði ég eftir því við utanríkisráðuneytið að það hlutaðist til um að Ísland gengi inn í samning um þessi innkaup. Þetta er mjög mikilvægur liður í því að tryggja landsmönnum örugga heilbrigðisþjónustu og stöðugleika í heilbrigðiskerfinu. Það er því stór áfangi fyrir okkur öll að þetta mál sé komið í höfn“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. 

Samningsferlinu lauk með því að samningurinn var undirritaður í Brussel í gær. Öll nauðsynleg skjöl og umboð voru send og undirrituð með rafrænum hætti, vegna útgöngu- og ferðatakmarkana í Belgíu.

Mikilvægur samningur til að tryggja nauðsynleg aðföng 

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, segir að með samstilltu átaki stjórnvalda hafi tekist á örskömmum tíma að tryggja aðild Íslands að samningnum. „Þátttaka í sameiginlegum innkaupum aðildarríkja samningsins hvað varðar nauðsynleg aðföng fyrir heilbrigðisþjónustu getur skipt sköpum þegar slík vá er fyrir dyrum. Þess vegna lögðum við áherslu á að hægt yrði að ganga frá aðild Íslands hratt og vel,“ segir Guðlaugur Þór.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum