Hoppa yfir valmynd
31. mars 2020 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Skatturinn felli tímabundið niður álag vegna skila á virðisaukaskatti á gjalddaga í apríl

Samkvæmt lögum um virðisaukaskatt, er 6. apríl 2020 gjalddagi virðisaukaskatts vegna uppgjörstímabilsins janúar og febrúar 2020.

Í 1. mgr. 27. gr. laganna kemur fram að sé virðisaukaskattur ekki greiddur á tilskildum tíma skuli aðili sæta álagi til viðbótar skatti samkvæmt virðisaukaskattsskýrslu eða til viðbótar þeim skatti sem honum bar að standa skil á. Sama gildir ef virðisaukaskattsskýrslu hefur ekki verið skilað eða verið ábótavant og virðisaukaskattur því áætlaður eða endurgreiðsla. hefur verið of há. Þá skal aðili sæta álagi ef endurgreiðsla hefur verið of há. Samkvæmt lögunum skal álag vera 1% af þeirri fjárhæð, sem vangreidd er, fyrir hvern byrjaðan dag eftir gjalddaga, þó ekki hærra en 10%.

Í lögum um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru, nr. 25/2020, var lögfest bráðabirgðaákvæði nr. XXXVII, við lög um virðisaukaskatt. Í ákvæðinu kemur fram að Skattinum sé heimilt, samkvæmt tilmælum eða að höfðu samráði við ráðherra, að fella niður álag tímabundið eða ótímabundið, enda hamli utanaðkomandi eða óviðráðanleg atvik almennt greiðslu virðisaukaskatts á réttum tíma.

Vegna þeirrar miklu óvissu sem ríkir nú í atvinnulífi og efnahag landsins eftir að lýst hefur verið yfir heimsfaraldri vegna kórónuveirunnar og að teknu tilliti til þess að í gildi er samkomubann í landinu sem gildir nú til 12. apríl næstkomandi og verður e.t.v. framlengt, telur ráðuneytið að gildar ástæður séu til að beita heimild bráðabirgðaákvæðis nr. XXXVII, laga um virðisaukaskatt, til tímabundinnar niðurfellingar álags vegna skila á virðisaukaskatti fyrir uppgjörstímabilið janúar og febrúar 2020.

Ráðuneytið hefur því beint þeim tilmælum til Skattsins að fella tímabundið niður álag vegna skila á virðisaukaskatti sem á gjalddaga er 6. apríl 2020 og gildi sú niðurfelling í tíu daga eða til 16. apríl 2020.

Af niðurfellingunni leiðir að ekki er reiknað álag vegna vanskila á virðisaukaskatti sem er á gjalddaga 6. apríl næstkomandi.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum