Hoppa yfir valmynd
1. apríl 2020 Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Gjástykki friðlýst gegn orkuvinnslu

Úr Gjástykki. Hrútafjöll í fjarska - myndGuðmundur Ögmundsson

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, undirritaði í dag friðlýsingu Gjástykkis í samræmi við lög um verndar- og orkunýtingaráætlun (rammaáætlun). Þetta er fyrsta friðlýsing háhitasvæðis í verndarflokki rammaáætlunar.

Gjástykki þykir einstætt á heimsvísu útfrá jarðfræðilegu sjónarmiði því þar má sjá hvernig land hefur gliðnað með tilheyrandi sigdæld, sprungum og misgengjum. Á svæðinu er að mestu leyti nýbrunnið og lítt gróið hraun sem runnið hefur á nútíma, m.a. frá Kröflueldum 1975-1984. Í rökstuðningi verkefnisstjórnar rammaáætlunar fyrir flokkun svæðisins í verndarflokk og friðlýsingu þess kemur fram að Gjástykki er hluti af eldstöðvakerfi Kröflu sem hefur verndargildi á heimsmælikvarða. Svæðið liggi í nágrenni náttúruminja með hátt verndargildi sem eigi að njóta friðunar. Þannig veiti líka einstakar jarðmyndanir í Gjástykki tækifæri til uppbyggingar þekkingar og fræðslutengdrar ferðaþjónustu.

Með friðlýsingunni er Gjástykki verndað gegn orkuvinnslu yfir 50MW í varmafli en þar voru uppi hugmyndir um jarðvarmavirkjun. Friðlýsingin nær ekki til annarra þátta en orkuvinnslu.

„Friðlýsingin í dag markar tímamót í friðlýsingum á Íslandi því þetta er fyrsta jarðhitasvæðið í rammaáætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða sem friðlýst er gegn orkuvinnslu. Friðlýsingin fylgir eftir ákvörðun Alþingis frá árinu 2013 og ég á von á að friðlýsa fleiri svæði úr rammaáætlun á næstu mánuðum,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.

Friðlýsing Gjástykkis gegn orkuvinnslu er hluti af friðlýsingaátaki sem umhverfis- og auðlindaráðherra ýtti úr vör árið 2018. Teymi ráðuneytisins og Umhverfisstofnunar vinnur að friðlýsingum svæða í verndarflokki rammaáætlunar, svæða á náttúruverndaráætlunum og svæða sem hafa verið undir álagi ferðamanna, auk annarra friðlýsinga.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira