Hoppa yfir valmynd
3. apríl 2020 Utanríkisráðuneytið, Dómsmálaráðuneytið

Forúrskurður Evrópudómstólsins í samræmi við málflutning íslenskra stjórnvalda

Hinrika Sandra Ingimundardóttir, lögfræðingur í dómsmálaráðuneytinu, Dr. Tobias Fuchs, ráðgjafi og Jóhanna Bryndís Bjarnadóttir, sendifulltrúi í utanríkisráðuneytinu. Á myndina vantar Gunnlaug Geirsson, lögfræðing í dómsmálaráðuneytinu.  - mynd

Evrópudómstóllinn í Lúxemborg kvað í gær upp forúrskurð í máli sem er til meðferðar hjá Hæstarétti Króatíu og varðar íslenskan ríkisborgara og framsalsbeiðni rússneskra stjórnvalda á hendur honum. Maðurinn er jafnframt með rússneskt ríkisfang. Forúrskurðurinn er í samræmi við málflutning íslenskra stjórnvalda í málinu.

Maðurinn var handtekinn á landamærum Slóveníu og Króatíu í júní í fyrra þegar hann var í fríi með fjölskyldu sinni. Við landamæraeftirlit á ytri landamærum Schengen-svæðisins kom í ljós að hann var eftirlýstur af Interpol að beiðni rússneskra stjórnvalda og var maðurinn því handtekinn og hefur setið í varðhaldi í Króatíu síðan.

Hæstiréttur Króatíu fékk beiðni rússneskra stjórnvalda um framsal mannsins til meðferðar og óskaði eftir forúrskurði Evrópudómstólsins um túlkun og samspil ESB-löggjafar við EES-samninginn í málinu. Málið fékk flýtimeðferð fyrir Evrópudómstólnum og fór munnlegur málflutningur fram í Lúxemborg 31. janúar sl. Íslensk stjórnvöld tóku þátt í málflutningnum.

Forúrskurður Evrópudómstólsins er í samræmi við málflutning íslenskra stjórnvalda. Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að óheimilt væri að framselja íslenskan ríkisborgara til þriðja ríkis án þess að sannreyna að hann muni ekki sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu í þriðja ríki. Í þessu máli bæri við það mat að líta til þeirrar staðreyndar að maðurinn hafði áður en hann öðlaðist íslenskan ríkisborgararétt, fengið alþjóðlega vernd hér á landi á grundvelli útlendingalaga.

Til viðbótar taldi dómstóllinn, að kæmust króatísk stjórnvöld að því að framsal væri heimilt til Rússlands bæri þeim áður en framsal færi fram að gefa íslenskum stjórnvöldum kost á að óska eftir afhendingu mannsins til Íslands að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Forúrskurður Evrópudómstólsins fjallar um túlkun og samspil ESB-löggjafar við EES-samninginn í málinu þar sem maðurinn taldist hafa verið að neyta frjálsrar þjónustustarfsemi á ferðalagi sínu. Hæstiréttur Króatíu mun kveða upp endanlegan dóm í framsalsmálinu og ber þá að fara eftir túlkun Evrópudómstólsins hvað ESB-löggjöfina varðar. Ekki er vitað hvenær Hæstiréttur Króatíu mun kveða upp endanlegan dóm í málinu.

Utanríkisráðuneytið hefur fylgst náið með málinu frá því að það kom upp, ásamt sendiráði Íslands í Berlín og ræðismanni Íslands í Zagreb. Íslensk stjórnvöld tóku þátt í munnlegu málsmeðferðinni í Lúxemborg til að koma á framfæri afstöðu íslenskra stjórnvalda til málsins. Málið hefur verið unnið í góðri samvinnu utanríkis- og dómsmálaráðuneytis.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira