Hoppa yfir valmynd
6. apríl 2020 Mennta- og barnamálaráðuneytið, Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Atvinnumál, menntaúrræði og aðgerðir fyrir atvinnuleitendur og námsmenn

Áhrifa COVID-19 faraldursins gætir í öllum atvinnugreinum og þegar hafa verið kynntar aðgerðir sem miða að því að styðja á fjölbreyttan hátt við vinnumarkaðinn, þar á meðal hlutastarfaleið og trygging launa fyrir sóttkví sem fyrirskipuð er af heilbrigðisyfirvöldum. Ljóst er að þau úrræði falla í sumum tilfellum ekki vel að hlutskipti íslenskra námsmanna. Atvinnuleysi hefur aukist gífurlega og brýnt að mæta menntunar- og virkniþörf atvinnuleitenda til viðhalda, bæta og breyta færni vinnuaflsins til sóknar þegar atvinnuástand batnar.

Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra og Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra hafa stofnað samhæfingarhóp sem skal skoða stöðu atvinnuleitenda og námsmanna og atvinnu- og menntaúrræði þeirra við þær breyttu aðstæður sem nú eru uppi í íslensku samfélagi. Verkefni hópsins er m.a. að:

  • Skilgreina atvinnugreinar sem verst verða úti og hvernig megi mæta því með fjölbreyttu og viðeigandi námi og þjálfun.
  • Kortleggja námsframboð og námsþjónustu sem nú er í boði innan framhaldsskóla, háskóla og framhaldsfræðslu, hvernig þau nýtast til að mæta breyttum aðstæðum og hvernig megi auka aðgengi að kynningu og ráðgjöf um nám og störf.
  • Leggja mat á hvar sérstakra námsaðgerða er þörf með tilliti til aldurs, uppruna, búsetu og efnahags.
  • Skoða hvernig megi tryggja og útfæra réttarstöðu einstaklinga, s.s. til atvinnuleysisbóta samhliða námi og töku námslána, þar sem horft er til jafnræðissjónarmiða. Meta stöðu námsmanna með tilliti til sumarstarfa.

Gylfi Arnbjörnsson hagfræðingur verður starfsmaður hópsins og mun stýra vinnu hans.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra: „Við höfum þurft að bregðast hratt við þessum afar sérstöku aðstæðum sem nú eru uppi vegna COVID-19 faraldursins. Við höfum þegar samþykkt umfangsmiklar aðgerðir á vinnumarkaði en við þurfum að nýta tímann meðan atvinnuleysi er jafn mikið og raun ber vitni til náms- og færniuppbyggingar atvinnuleitenda og samstarf okkar við menntakerfið í þeim efnum er afar mikilvægt.“

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra: „Námsmenn eru líkt og margir uggandi um sinn hag og það er brýnt að reyna að eyða sem mestri óvissu. Markmið okkar aðgerða verður að styðja markvisst við þá, til dæmis í gegnum Lánasjóð íslenskra námsmanna og Nýsköpunarsjóð námsmanna, ásamt því að nýta menntakerfið til þess að efla og styrkja nám og þjálfun í þeim atvinnugreinum sem mögulega verða hvað verst úti. Menntun eflir samfélög og stuðlar að framþróun þeirra, menntun verður þannig mikilvægur liður í viðspyrnu okkar til framtíðar.“

Áhersla verður lögð á víðtækt samráð í samhæfingarhópnum og munu stjórnvöld því kalla eftir tilnefningum m.a. frá Vinnumálastofnun, Alþýðusambandi Íslands, Samtökum atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins fjármálaráðuneyti, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Bandalagi háskólamanna, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja auk fulltrúa framhaldsfræðslu, skólameistara framhaldsskóla og rektora háskóla, Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, Leikn – samtökum fullorðinsfræðsluaðila á Íslandi og Landssamtökum íslenskra stúdenta.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

8. Góð atvinna og hagvöxtur
4. Menntun fyrir öll

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum