Hoppa yfir valmynd
8. apríl 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Félagsmálaráðuneytið og Reykjavíkurborg styðja við úrræði fyrir fólk í húsnæðisvanda vegna Covid-19

Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra á fjarfundi með Degi B. Eggertssyni borgarstjóra - mynd

Félagsmálaráðuneytið mun fjármagna tímabundnar lausnir fyrir þá sem ekki hafa í nein hús að venda vegna COVID-19 faraldursins í samstarfi við Reykjavíkurborg. Áætlaður heildarkostnaður vegna verkefnisins, sem er til fjögurra mánaða, er um 85 milljónir króna.

Sólarhringsmóttaka og neyðarhúsnæði fyrir fólk í húsnæðisvanda

Á undanförnum vikum hefur vaxandi hópur einstaklinga leitað til félagsþjónustu sveitarfélaga eftir fjárhagsaðstoð og aðstoð við húsnæðisleit. Um er að ræða fólk sem hefur dvalist erlendis, hjá ættingjum eða vinum eða í öðru tímabundnu húsnæði og hefur lent í fjárhags- og húsnæðisvanda vegna COVID-19, til dæmis vegna hættu á smiti í núverandi húsnæði, eða fólk sem þarf að fara í sóttkví, missir samastað sinn og leitar til sveitarfélags síns eftir húsnæðisúrræðum. Stundum getur þessar aðstæður borið brátt að og þörf fyrir úrræði strax.

Í ljósi þessa mun Reykjavíkurborg, með fjármögnun frá félagsmálaráðuneytinu, koma á fót sérstakri móttöku sem er opin allan sólarhringinn og býður upp á skammtímahúsnæði fyrir þá sem eru í húsnæðisvanda vegna COVID-19. Reykjavík hefur þjónustað langstærsta hluta heimilislausra með fjölþættan vanda hér á landi og starfrækir þrjú neyðarskýli. Samstarfið þýðir jafnframt að borgin mun hafa svigrúm til að taka við öllum þeim sem þurfa þjónustuna á landsvísu óháð lögheimili. Móttakan mun tengja viðkomandi einstaklinga við félagsráðgjafa í því sveitarfélagi þar sem einstaklingurinn á lögheimili en viðkomandi getur dvalið í skammtímahúsnæðinu þar til mál hans eru komin í réttan farveg hjá því sveitarfélagi sem um ræðir. Rætt hefur verið við Akureyrarbæ um að grípa til svipaðra aðgerða í framhaldinu sé þörf og tilefni til.

Aðgerðir vegna heimilislausra með fjölþættan vanda

Þjónustuaðilar hafa á síðustu vikum einnig fundið fyrir auknu álagi og eðlisbreytingu mála hjá heimilislausu fólki með fjölþættan vanda í kjölfar COVID-19 faraldursins. Flest þau úrræði sem eru í boði fyrir þennan hóp eru fullnýtt og því hefur félagsmálaráðuneytið hafið samstarf við Reykjavíkurborg um eflingu á þjónustu við þennan hóp.

Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra: „Við höfum séð mikið og aukið álag á félagsþjónustu sveitarfélaganna í kjölfarið á COVID-19 faraldrinum og það er því gríðarlega mikilvægt að við stígum þar inn og aukum þau úrræði tímabundið sem standa til boða. Í góðu samstarfi við Reykjavíkurborg munum við því efla þjónustu næstu fjóra mánuði við heimilislausa og þá sem eiga í tímabundnum húsnæðisvanda.”

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri: „Heimilislausir og jaðarsettir einstaklingar verða oft útundan á tímum sem þessum og það er mikilvægt fyrir okkur sem samfélag að mæta þeim viðkvæmu hópum. Samvinna borgarinnar og ráðuneytisins er afar mikilvæg í þessum málaflokki – sérstaklega á tímum þessa skæða heimsfaraldurs. Einmitt núna þurfum við að vinna saman og standa saman.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum