Hoppa yfir valmynd
16. apríl 2020 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Menntamál í brennidepli: fundur evrópskra menntamálaráðherra um COVID-19

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra - mynd

„Áhrif COVID-19 draga fram mikilvægi grunnstoða allra samfélaga. Mikilvægi menntunar er rauður þráður í viðbrögðum stjórnvalda í Evrópu og við áttum góðan fund, deildum reynslu okkar og ræddum aðgerðir,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra um veffund evrópskra menntamálaráðherra í vikunni.

Fram kom á fundi menntamálaráðherranna að öll aðildaríki Evrópusambandsins hafa annað hvort lokað menntastofnunum sínum að hluta eða að fullu og eru nú að huga að því hvernig best sé að haga afléttingu þeirra lokana. Sérstaða íslenskra leik- og grunnskólar sem hafa verið að mestu opnir, þrátt fyrir takmarkanir, er umtalsverð í því samhengi og hafa borist þónokkrar fyrirspurnir um þá nálgun til mennta- og menningarmálaráðuneytisins bæði frá erlendum fjölmiðlum og sendiráðum. 

„Það er afrek í mínum huga að okkur hefur tekist að halda mikilvægri starfsemi leik- og grunnskólanna gangandi þrátt fyrir þessa erfiðleika og því er að þakka þolgæði, útsjónarsemi og forgangsröðun íslenskra kennara og skólafólks. Samtakamátturinn er okkar sterkasta vopn gegn þessari skæðu veiru,“ segir ráðherra. 

Áhersla á velferð nemenda og stuðningur við kennara bar mikið á góma á fundi evrópsku ráðherranna en alls tóku 30 menntamálaráðherrar þátt í fyrrgreindum fundi og ræddu þar sínar aðgerðir og áskoranir í samhengi við COVID-19. Mikið var rætt um fjarnám og nýtingu stafrænna lausna í skólastarfi, fyrirkomulag námsmats á ólíkum skólastigum, flæði nemenda á milli skólastiga og hvernig best má huga að félagslega viðkvæmum nemendahópum.

„Það er ljóst að staðan er afar ólík innan Evrópu en það er mikill áhugi á því að deila reynslu og þekkingu – við höfum margt fram að færa og læra hvert af öðru á þessum flóknu tímum,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum