Hoppa yfir valmynd
17. apríl 2020 Innviðaráðuneytið

Mikilvægt að setja upp byggðagleraugun

Ársfundur Byggðastofnunar fór fram í gær, fimmtudaginn 16. apríl, en í ljósi aðstæðna í samfélaginu var um fjarfund að ræða. Sjö manna stjórn Byggðastofnunar var kjörin á ársfundinum og var Magnús Jónsson frá Skagaströnd endurkjörinn formaður stjórnarinnar. 

Sigurður Ingi Jóhannsson, ráðherra byggðamála, sagði í ávarpi sínu á ársfundinum að ýmis jákvæð teikn væru á lofti þrátt fyrir margvísleg vandamál og áskoranir, sem þjóðin stæði frammi fyrir vegna COVID-19 faraldursins  Sem dæmi um það nefndi ráðherra að þjóðin hefði á undraskömmum tíma lært að nýta nýjustu tæki í samskiptum og því  komið sér afar vel að búið er að leggja háhraða netsamband um allt land. Ráðherra sagði að tæknin og tækifæri henni tengd ættu eftir að greiða götu margvíslegra aðgerða sem styrkja byggðaþróun, s.s. störf án staðsetningar, rekstur fjarvinnslustöðva og fjarheilbrigðisþjónustu. 

„Við þurfum að nálgast málin með því að rýna í tækifærin og hvernig áföll sem þessi sem við nú göngum í gegnum, þó vissulega séu afar stór og umfangsmikil og varði marga, geti engu að síður leitt til jákvæðrar þróunar á sumum sviðum,“ sagði Sigurður Ingi.

Byggðasjónarmið að leiðarljósi við endurreisn fyrirtækja

Fram kom í ávarpinu að ráðherra hafi átt samráðsfund með landshlutasamtökum sveitarfélaga og fleirum í byrjun apríl þar sem farið var yfir stöðuna. Ráðherra sagði að þar hafi komið fram góð ábending um að mikilvægt væri að setja upp „byggðagleraugu“ þegar komi að því að takast á við vandann og vinna okkur út úr honum. „Það geti til dæmis átt við þegar farið verður í það að meta „lífvænleika“ fyrirtækja og aðstoð og fyrirgreiðslu stóru fjármálastofnananna við einstök fyrirtæki. Brúarlánin svokölluðu eru þar efst á blaði. Það geta verið fleiri sjónarmið sem skipta þar máli sem bara hreinn efnahagsreikningur, það verður að meta í hvaða samhengi fyrirtækin starfa, samfélagsleg áhrif þeirra og gildi, byggðasjónarmiðin,“ sagði Sigurður Ingi. Hann sagði að ráðuneytið og Byggðastofnun myndu fylgjast vel með þeirri framvindu.

Að lokum þakkaði ráðherra stjórn og starfsfólki Byggðastofnunar fyrir mikilvægt framlag til byggðamála í landinu. „Hlutverk og mikilvægi stofnunarinnar hefur aldrei verið meira en nú og ég tel líka að hún hafi mikið traust í samfélaginu. Það hefur tekist að byggja upp mjög ánægjulegt samstarf þvert á málaflokka og þvert á stjórnsýslustig um byggðamál. Byggðastofnun er þar í lykilhlutverki.“

Stjórn Byggðastofnunar kjörin á ársfundi 2020:

  • Magnús Jónsson
  • Halldóra Kristín Hauksdóttir
  • Sigríður Jóhannesdóttir
  • Gunnar Þorgeirsson
  • Karl Björnsson
  • María Hjálmarsdóttir
  • Unnar Hermannsson

Varastjórn:

  • Bergur Elías Ágústsson
  • Herdís Þórðardóttir
  • Þórey Edda Elísdóttir
  • Lilja Björg Ágústsdóttir
  • Anna Guðrún Björnsdóttir
  • Friðjón Einarsson
  • Heiðbrá Ólafsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum