Hoppa yfir valmynd
17. apríl 2020 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ráðist í aðgerðir til að stöðva olíuleka úr El Grillo

Ríkisstjórnin hefur samþykkt tillögu Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra, að grípa til aðgerða til að stöðva olíuleka úr skipsflakinu El Grillo sem liggur á botni Seyðisfjarðar. Áætlaður kostnaður vegna aðgerðanna er um 38 milljónir króna.

El Grillo er 10 þúsund lesta breskt olíubirgðaskip sem var sökkt árið 1944 í árás þýskra flugvéla. Árið 1952 var olíu dælt úr skipinu og aftur árið 2001 þegar rúm 60 tonn af hreinni olíu náðust úr því en útreikningar þá bentu til þess að 10 – 15 tonn af olíu sætu ennþá eftir í flakinu. Síðan hefur reynslan sýnt að olía leki úr flakinu þegar sjór hlýnar á sumrin. í könnunarleiðangri Landhelgisgæslunnar í október sl. kom í ljós að töluverður olíuleki var úr opi við olíutanka skipsins vegna tæringar. Því er mikilvægt að bregðast við lekanum hið fyrsta til að fyrirbyggja neikvæð umhverfisáhrif í firðinum.

Þær aðgerðir sem nú verður ráðist í felast í því að loka opinu með því að steypa yfir það. Þá verður loka komið fyrir í steypunni sem nýta mætti síðar ef til þess kemur að dæla þurfi úr tankinum. Stefnt er að því að undirbúningur vegna aðgerðanna hefjist  nú á vormánuðum 2020 og verður verkefnið á höndum Landhelgisgæslunnar.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum