Hoppa yfir valmynd
17. apríl 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Mennta- og barnamálaráðuneytið

Samtökin Móðurmál styðja nemendur af erlendum uppruna

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra og Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra hafa gert samkomulag við Móðurmál, samtök um tvítyngi, um stuðning við nemendur af erlendum uppruna við þær aðstæður sem nú ríkja vegna Covid-19. Einkum er gert ráð fyrir að Móðurmál bjóði nemendum af erlendum uppruna upp á fjarkennslu í móðurmáli og einstaklingsbundna aðstoð við heimanám á meðan takmörkun á skólastarfi er í gildi og eftir þörfum út skólaárið.

Móðurmál hefur um áratugaskeið stuðlað að móðurmálskennslu fyrir börn af erlendum uppruna.  Starfræktir eru margir tungumálahópar fyrir börn og ungmenni af erlendum uppruna á Íslandi og um 500 börn eru í virkum tengslum við samtökin. Með samkomulaginu er tryggt að börnunum bjóðist aðstoð við heimanám og stuðningur við móðurmál á meðan samkomubannið er í gildi og takmörkun á skólastarfi og einnig viðeigandi aðstoð og stuðningur þegar skólahald verður með eðlilegum hætti á ný.

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra: „Það er afar mikilvægt að tengsl barna af erlendum uppruna við skólastarf og samfélagið styrkist. Nú ríður á að íslenskt samfélag efli nemendur í námi sínu og samskiptum. Samtökin Móðurmál eru í lykilstöðu til að nálgast þennan hóp nemenda enda ríkir mikið traust til samtakanna.”

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra: „Öll börn eiga að njóta jafnra tækifæra og nú þegar skólastarf er takmarkað er mikilvægt að tryggja að börn af erlendum uppruna fái þann stuðning sem þau þurfa. Mikilvægi félagsamtaka sannar sig nú en samtökin Móðurmál hafa boðið upp á móðurmálskennslu fyrir börn af erlendum uppruna í yfir áratugskeið og eru samtökin því í góðum og nánum samskiptum við fjölda barna og foreldra af erlendum uppruna og munu geta veitt mikilvægan stuðning á þessum tímum.“  

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum