Hoppa yfir valmynd
18. apríl 2020 Heilbrigðisráðuneytið

Ræktun iðnaðarhamps verður heimil í kjölfar reglugerðarbreytingar

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur með breytingu á reglugerð nr. 233/2001 veitt Lyfjastofnun undanþáguheimild með stoð í 2. gr. laga um ávana- og fíkniefni sem gerir innflutning, meðferð og vörslu fræja til ræktunar iðnaðarhamps mögulega. Heimildin er háð skilyrðum og takmörkunum svo tryggt sé að ekki verði fluttar inn eða ræktaðar plöntur sem innihalda vímuefnið THC í nýtanlegu magni, eða að hámarki 0,2%.

Vaxandi áhugi er fyrir ræktun iðnaðarhamps hér á landi til að nota í ýmsum iðnaði, t.d. við framleiðslu húsgagna og sem byggingarefni en talið er að iðnaðarhampur geti komið í staðinn fyrir ýmis efni sem ógna umhverfinu, eins og t.d. plasts.

Iðnaðarhampur er ein tegund kannabis en planta með því heiti er ýmsum kunn sem vímugjafi. Vímuvaldurinn í kannabis er virka innihaldsefnið THC sem auk þess að valda vímu er ávanabindandi. Iðnaðarhampur, þ.e. þau yrki kannabisplöntunar sem ræktuð eru til iðnaðarframleiðslu eru aftur á móti frábrugðin hefðbundnum yrkjum plöntunnar þar sem þau innihalda lítið sem ekkert af THC.

Sé litið til regluverks annarra þjóða varðandi ræktun iðnaðarhamps þá er ræktun á tilteknum yrkjum sem innihalda minna en 0,2% af THC heimil að uppfylltum tilteknum skilyrðum í Svíþjóð og Danmörku. Svo er aftur á móti ekki í Noregi en þar eru þessi mál til skoðunar um þessar mundir. Innan Evrópusambandsins hefur ræktun á iðnaðarhampi verið hluti af styrkjakerfi ESB frá árinu 2000.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra leggur áherslu á að reglugerðarbreytingin sé tímabundin ráðstöfun: „Ávana- og fíkniefnalöggjöfin hefur skýr markmið og tilgang sem fellur augljóslega að málefnasviðum heilbrigðisráðuneytisins. Það gerir sú ræktun sem hér um ræðir hins vegar ekki, að því gefnu að hún stangist ekki á við inntak og markmið þessara sömu laga“ segir ráðherra. Hún segir því nauðsynlegt að skipa starfshóp til að koma þessum málum í farveg, ekki síst til að skýra lagagrundvöllinn og ábyrgð þeirra stofnana sem þurfa að koma að framkvæmdinni þegar kemur að leyfisveitingum og eftirliti með ræktun iðnaðarhamps. „Heilbrigðisráðuneytið og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið þurfa að vinna þetta saman ásamt þeim stofnunum ráðuneytanna þar sem nauðsynleg þekking er fyrir hendi“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sem stefnir að því að skipa slíkan starfshóp sem fyrst.

Reglugerðin hefur verið send Stjórnartíðindum og tekur gildi við birtingu, eigi síðar en 21. apríl næstkomandi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum