Hoppa yfir valmynd
22. apríl 2020 Heilbrigðisráðuneytið

Valkvæðar skurðaðgerðir heimilaðar á ný 4. maí

Valkvæðar skurðaðgerðir og ífarandi rannsóknir verða heimilaðar frá 4. maí næstkomandi og ýmsum öðrum takmörkunum á heilbrigðisþjónustu aflétt. Heilbrigðisráðherra hefur tekið ákvörðun um þetta í samræmi við tillögu landlæknis.

Vegna COVID-19 faraldursins var ákveðið að fresta valkvæðum skurðaðgerðum og öðrum ífarandi inngripum með auglýsingu heilbrigðisráðherra 23. mars sl. Horft var til þess að endurskipuleggja heilbrigðisþjónustuna þannig að unnt væri að sinna sjúklingum með COVID-19 jafnframt því að veita aðra nauðsynlega heilbrigðisþjónustu. Nú þegar faraldurinn er í rénun og álag á heilbrigðiskerfið fer minnkandi hefur landlæknir fengið staðfest frá forstjórum Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri að þeir telji óhætt að létta á hömlum um framkvæmd valkvæðra skurðaðgerða og ífarandi rannsókna frá 4. maí næstkomandi, að því gefnu að faraldurinn taki ekki óvænta stefnu í millitíðinni.

Auglýsing heilbrigðisráðherra þessa efnis hefur verið send til birtingar í Stjórnartíðindum ásamt fyrirmælum landlæknis til viðkomandi heilbrigðisstofnana og heilbrigðisstarfsmanna varðandi afléttingu fyrri takmarkana. Í fyrirmælum sínum  beinir landlæknir þeim tilmælum til skurðlækna, annarra hlutaðeigandi lækna og tannlækna sem ákvörðunin tekur til, að þeir upplýsi skjólstæðinga og geri viðeigandi ráðstafanir. Þess er vænst að læknar og tannlæknar forgangsraði meðferð þannig að þeim sem hafa brýnasta þörf verði sinnt fyrst. Í fyrirmælunum er einnig fjallað um smitvarnir og nauðsynlega varúð til að hindra útbreiðslu COVID-19.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum