Hoppa yfir valmynd
24. apríl 2020 Innviðaráðuneytið

Margvíslegar aðgerðir til að styðja sveitarfélög

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, á blaðamannafundi um annan áfanga aðgerða ríkisstjórnarinnar vegna COVID-19 faraldursins. - mynd

Margvíslegar aðgerðir fyrir sveitarstjórnarstigið eru að finna í öðrum áfanga stjórnvalda vegna heimsfaraldurs kórónaveiru. Meðal þeirra er styðja við og liðka fyrir fjárfestingum sveitarfélaga og sértækur stuðningur við viðkvæm svæði. Í frumvarpi til fjáraukalaga, sem var lagt fram í vikunni, er lagt til að bæta alls 405 milljónum kr. við framlög til sveitarfélaga og byggðamála, en til viðbótar fara 600 milljónir kr. til stuðnings lágtekjuheimila til að tryggja jöfn tækifæri barna til íþrótta- og tómstundastarfs í sumar.

Stuðningur við viðkvæm svæði

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að 250 milljónir kr. fari í sértækan stuðning við Suðurnes til að fylgja eftir aðgerðaáætlun ráðherraskipaðrar nefndar um málefni svæðisins. Efnahagsástand á Suðurnesjum krefst sérstakra úrræða, en atvinnuleysi þar stefnir í 24% í apríl. Fyrirhuguð úrræði eru m.a. aukin þjónusta við erlenda íbúa, efling Reykjanes Geopark og stofnun þverfaglegs teymis á sviði félags-, heilbrigðis- og menntamála.

Þá gert ráð fyrir 30 m.kr. framlagi til félagslegrar þjónustu og annarra viðfangsefna sem upp koma í tenglum við COVID-19 faraldurinn í dreifðustu byggðum landsins, s.s. varðandi barnavernd og félagsþjónustu.

Stafræn þróun efld

Þá verður 100 milljónum kr. veitt til stafrænnar þróunar á vegum sveitarfélaga til að bæta þjónustu og auka samskipti. Breytingar hafa verið gerðar á sveitarstjórnarlögum sem tryggja að hægt sé að halda sveitarstjórnarfundi eingöngu í gegnum fjarfundarbúnað sem er gott dæmi um það hvernig megi hagnýta upplýsingatækni til góðs.

Byggðastofnun greini vanda sveitarfélaga

Samgöngu og sveitarstjórnarráðherra hefur falið Byggðastofnun að greina vanda sem blasir við einstökum sveitarfélögum og svæðum sem tengist Covid-19 faraldrinum, m.a. vegna hruns ferðaþjónustunnar. Að einhverju leyti munu átaksverkefni atvinnuleysistryggingasjóðs og aðrar aðgerðir ríkisstjórnarinnar mæta þeim erfiðleikum, en greina þarf frekar sértækar aðgerðir og áskoranir einstakra svæða. Í frumvarpi til fjáraukalaga er lagt til að verja 25 milljónum kr. í að þróa sviðsmyndalíkan, sem nýtast til að greina fjárhagslega sjálfbærni sveitarfélaga. Því verður ætlað að finna veikleika í búskap einstakra sveitarfélaga til að geta sett upp sviðsmyndir til að bregðast betur við þegar sambærilegar aðstæður koma upp.

Fjárfestingar sveitarfélaga studdar

Til þess að liðka fyrir markmiði sveitarfélaga um flýtiframkvæmdir verður þeim veittur tímabundinn réttur til endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu á byggingarstað. Þá Fasteignasjóður Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga fær heimild til að veita styrki til sveitarfélaga. Styrkjunum er ætlað að fjármagna framkvæmdir til að bæta aðgengi fatlaðs fólks í fasteignum og mannvirkjum. Einnig verður heimilt að nýta fjármagn fasteignasjóðsins til að milda tekjufall Jöfnunarsjóðsins.

  • Þríþættar aðgerðir á sveitarstjórnarstigi munu stuðla að uppbyggingu og bættum úrræðum. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum